140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[11:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Einstaka þingmenn hafa komið upp í dag í þessari umræðu en ekki síður í fyrri umræðum og dylgjað um að annarleg sjónarmið liggi að baki hjá þingmönnum Suðurkjördæmis þegar þeir fjalla um fangelsismál eða réttargeðdeildina á Sogni. Það finnst mér afar ósmekklegt.

Í sambandi við það sem hér hefur verið rætt um staðsetninguna þá ætla ég að vitna í þessa skýrslu frá 2006.

„Núverandi húsakostur er á fallegum og friðsælum stað í Sogni í Ölfusi með miklu víðsýni rétt utan alfaravegar en rúmlega hálftíma akstursfjarlægð frá Reykjavík. Þessi staðsetning gefur möguleika á meira frjálsræði og heimilislegra umhverfi en hægt væri að viðhafa ef deildin væri staðsett í þéttbýli. Staðsetningin auðveldar einnig öryggisgæslu og lögreglan á Selfossi er í næsta nágrenni og kemur með stuttum fyrirvara ef á þarf að halda. Fjarlægð frá almennum geðdeildum og stoðdeildum sjúkrahúss er hins vegar viss ókostur.“

Er það nú lykilatriði hvort menn keyra í 40 mínútur eða 15 mínútur innan bæjar í Reykjavík því að Kleppur er sannarlega ekki byggður á aðalstöðvum Landspítalans. Það þarf að fara á milli, geðlæknarnir eru ekki á deildunum allan daginn.

Ef ég vitna aðeins í minnisblað sem við fengum og fjallað var um frá starfsmönnum á Sogni, þá segja þeir:

„Sjúklingarnir hafa sjálfir sagt hversu gott það er að ganga með öryggisgæslumönnum í náttúrunni í kringum Sogn og fylgjast með dýralífi og útsýni þar án áreitis. Á Sogni er lítil starfsmannavelta og hafa starfsmenn verið lengi í starfi og hafa því mjög mikla reynslu og þekkingu sem er mikilvæg fyrir sjúklingana sem eru vistaðir til langs tíma. Á Sogni er eina sérfræðireynslan og þekkingin á meðferð ósakhæfra afbrotamanna á Íslandi.“

Það er staðreynd og þær tölur sem ég vitnaði til, um þann fjölda sem þar hefur farið í gegn og ekki verið endurdæmdur, það er líka staðreynd. Það hlýtur þá eitthvað að hafa verið gert gott á þessum stað, það segir sig sjálft.