140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:02]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það á ekki að vera dagskipun háð hvar á landinu heilbrigðisþjónusta og gæsluþjónusta er. Þannig háttar hins vegar til með þá ákvörðun sem stefnt er að með Sogn. Það er dagur og nótt, munurinn á sálarheill, að búa við heimilisbrag fremur en stofnanabrag. Einn af lykilkostunum á Sogni er að þar er vinsamlegt umhverfi, náttúruríkt og hlýlegt.

Auðvitað skiptir atvinnuþátturinn í dæminu miklu máli, ekki bara með tilliti til starfsfólks heldur líka með tilliti til vistmanna. Reynsla af starfi starfsfólksins á Sogni hefur verið afar góð og þakkarverð. Það er þannig sem menn eiga að vinna, reynslan er dýrmætur skóli og hefur skilað miklum árangri á Sogni.

Það var gerð aðför að Sogni fyrir tæpum fjórum árum. Þá átti að flytja Sogn á geðdeildina við Landspítalann, það átti að kosta 800 milljónir og þótti ekki mikið í augum sérfræðinganna þá. Síðan er gerð atlaga að Sogni nú þegar það á að flytja Sogn að Kleppi. Hæstv. ráðherra talar um að það kosti 78 milljónir en það er rangt. Ég veit ekki hvaða orðaleiki menn eru með í kringum upplýsingar til ráðherra, þessi kostnaður er um 300 milljónir. Það skiptir máli, en aðalatriðið er samt að það er verið að færa þarna reynsluríkt samfélag og (Forseti hringir.) það er aðför að starfsfólki og vistmönnum. Ferðakostnaður starfsmanna yrði 200 þús. kr. á mann á mánuði eða þar um bil ef þeir færu að starfa í Reykjavík og þetta er allt tóm hringavitleysa. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að ljúka þessari úttekt sem óskað hefur verið eftir þannig að hægt sé að gera þetta á faglegum grundvelli.