140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:05]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu langar mig að byrja á því að segja að almennt þurfum við að fjalla mun meira um geðheilbrigðismál og gera þeim hærra undir höfði í allri umræðu um heilbrigðismál almennt og aðbúnað geðfatlaðra. Eins og ýmsir hafa sagt skiptir öllu máli að setja sjúklingana og hag þeirra í forgrunn, það skiptir höfuðmáli í þessum efnum. Þegar kemur að aðbúnaði sjúklinga, hvort sem er á sviði geðheilbrigðismála eða annarra heilbrigðismála, eigum við stjórnmálamenn auðvitað að hlusta en ekki fyrirskipa. Við eigum að hlusta á fagfólkið, við eigum að hlusta á sjúklinga, við eigum að hlusta á þá sem gerst til þekkja og hafa á þessum málum bestu faglegu þekkinguna.

Þá vil ég leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna meðal annars í Pál Matthíasson, framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítalans, sem segir að með því að færa þessa starfsemi þróist tækifæri til að bæta þjónustu við sjúklinga og tryggja betur öryggi þeirra. Undir þetta tekur, eins og fram hefur komið, fagdeild geðhjúkrunarfræðinga, undir þetta tekur líka Sigurður Páll Pálsson yfirlæknir sem segir að hann telji þetta rétta framtíðarþróun og til hagsbóta fyrir sjúklinga.

Hið sama segja sjúklingar sjálfir, fólk sem þekkir til, Geðhjálp, þ.e. að þetta verði til þess að bæta þjónustuna við geðfatlaða. Að sjálfsögðu er ekki með þessu verið að gera lítið úr þeim árangri sem hefur náðst og þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað. Ég tek undir að (Forseti hringir.) allt svona þarf að gera með virðingu, af almennri kurteisi og í samráði og með gagnkvæmri upplýsingaveitu til starfsmanna. (Forseti hringir.) Númer eitt, tvö og þrjú skiptir hagur sjúklinga máli og í þeim efnum segir fagfólk okkur að þetta sé rétt ákvörðun.