140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja fyrir mína parta að hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu að á þeim tíma sem hún hefur setið á Alþingi hafi hún aldrei séð aðra eins umsögn um nokkurt frumvarp frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég verð þá að koma því að að ég hef heldur aldrei heyrt aðra eins ræðu hjá nokkrum hæstv. ráðherra um umsögn, eins og hér var verið að fjalla um. Nú þekki ég ekki efni málsins en mér fannst mjög sérkennilegt að hlusta á ræðu hæstv. ráðherra, sérstaklega þegar hún talaði um að þar væru starfsmenn, þ.e. innan fjármálaráðuneytisins, sem væru í einhvers konar pólitík, þetta væri bara pólitískt álit eða umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Ég verð því að staldra aðeins við vegna þess að fjárlagaskrifstofan heyrir að sjálfsögðu undir hæstv. fjármálaráðherra og hann ber að sjálfsögðu ábyrgð á sínu ráðuneyti.

Ég verð að viðurkenna án þess að ég ætli að leggja mat á hvað er rétt eða rangt í þessu máli, ég hef bara engan grunn eða þekkingu eða aðgang að gögnum til að meta það, að mér finnst hæstv. ráðherra hafa farið dálítið bratt í þessa umræðu, sérstaklega þar sem um þá var fjallað sem geta ekki komið hingað og varið sig. Það er bara mín skoðun. Mér finnst hún hafa farið mjög bratt í það.

Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra að einu sem er það fyrsta sem kemur upp í huga mér. Þegar þessi umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kom fram, hafði hæstv. ráðherra þá samband við þá aðila sem skrifuðu þá umsögn? Talaði hæstv. iðnaðarráðherra við hæstv. fjármálaráðherra? Gerði ráðherra hugsanlega þær athugasemdir og kom hún með þau gögn sem hæstv. ráðherra fór yfir í máli sínu og benti á máli sínu til stuðnings, þar sem hún hakkaði þetta í sig og taldi þetta pólitíska umsögn? Hafði hæstv. iðnaðarráðherra samband og ræddi hún sérstaklega við hæstv. fjármálaráðherra um umsögnina? Ræddi hæstv. iðnaðarráðherra við starfsmenn ráðuneytisins sem skrifuðu umsögnina og ef svo var, hvers vegna var þá umsögninni ekki breytt áður en mælt var fyrir frumvarpinu?