140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í því kostnaðarmati sem ég fjallaði um voru engar tölur um hin efnahagslegu áhrif á samfélagið, ekki ein einasta. Það voru engar tölur. Þær tölur sem lagðar hafa verið fram voru tölur sem við í iðnaðarráðuneytinu sóttum og ég fór yfir áðan hverju það skilaði til þjóðarbúsins.

Það sem ég gagnrýni er að fjögurra blaðsíðna kostnaðarmat skuli innihalda setningar á borð við þá sem ég fór yfir áðan, með leyfi forseta, „að annars væri hluti þeirra sem að þessu hafa starfað að sinna störfum í öðrum atvinnugreinum sem greiði álíka skatta og skyldur“.

Virðulegi forseti. Það eru svona setningar í þessu kostnaðarmati sem gefa okkur alþingismönnum fullt tilefni til að gagnrýna með hvaða hætti frumvörp eru metin sem hingað eru komin í þingið. Fyrir mér er þetta pólitík, (Forseti hringir.) pólitísk afstaða, en ég er ekki að taka (Forseti hringir.) einstaka embættismenn og nefna þá. Ég er bara (Forseti hringir.) að tala um fjárlagaskrifstofuna sem skilaði (Forseti hringir.) þessu kostnaðarmati og hún sjálf hlýtur að geta (Forseti hringir.) staðið undir því sem hún sendir frá sér.