140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um þetta. Ég held til dæmis að bara þau þrjú verkfæri sem ég nefndi áðan, það sem hér um ræðir, þ.e. endurgreiðsla út af kostnaði vegna kvikmyndagerðar, verkfæri eins og Allir vinna sem hefur verið til þess fallið að ýta af stað verkefnum við t.d. endurbætur á húsnæði, hafi skilað mjög góðum árangri og svo ekki síst verkefni, svokölluð nýsköpunarlög, sem sýna að þau skila gríðarlega góðum árangri inn í mjög lítil fyrirtæki á sínum upphafsárum.

Svo dæmi sé tekið líta fyrirtæki svo á að það kerfi hjálpi þeim og að þeir fjármunir sem koma í gegnum þær endurgreiðslur í gegnum skattkerfið verði til þess að þau geti haldið áfram, þau geti haldið starfsmönnum og það verði auðveldara fyrir þau að fjármagna sig. Þetta eru góðar fréttir sem við fáum víða að úr atvinnulífinu, frá litlum sprotum, þar sem við erum að fá vitnisburð þeirra aðila um að þessi kerfi séu að virka.

Við eigum að búa til hvata fyrir atvinnulífið, við eigum að búa til hvata fyrir nýja starfsemi og við eigum að gera það á breiðum grunni. Það getur kallað á það að við getum ekki reiknað út upp á krónu fram í tímann hvernig slíkt umfang skilar sér af því að með þessum hvatakerfum erum við líka að búa til meiri veltu. Við erum að búa til meira umfang hjá viðkomandi sviði og það er eflaust erfitt að reikna það út fyrir fram. En við hljótum að fagna því ef þessi verkfæri skila okkur auknum umsvifum. Þess vegna höfum við stutt það að fara þessar leiðir og ríkisstjórnin hefur lagt á það mikla áherslu að búa til svona hvatakerfi eins víða og því verður við komið.