140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[13:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var meðal annars þess vegna sem ég ákvað að halda þá tölu sem ég hélt áðan um kostnaðarmatið. Það var til að koma sjónarmiðum okkar um þetta mál á framfæri vegna þess að við ráðum ekki við það að þessi kostnaðarumsögn fylgi með án talna en hún er hins vegar full af fullyrðingum sem við teljum ekki standast. Það var ástæðan fyrir því og ég vildi að þingheimur, sem hefur fengið frumvarpið í hendur og á að greiða um það atkvæði, vonandi fyrir jól, heyrði okkar sjónarmið. Mér finnst það algjört lágmark.

Virðulegi forseti. Síðan vil ég nefna aðeins varðandi það fyrsta sem hv. þingmaður nefndi, um að haft hefði verið samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Það rétt og það er vegna þess að í þeirri vilyrðanefnd, sem tekur umsóknirnar til skoðunar samkvæmt lögum, eiga sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kvikmyndamiðstöðvar auk iðnaðarráðuneytis. Að þessu hefur verið unnið hjá þessum ráðuneytum og alla tíð, frá árinu 1999, hefur þetta verið samvinnuverkefni þessara þriggja ráðuneyta, þ.e. í nefndinni sitja fulltrúar þeirra.

Þessi nefnd tók síðan að sér að fara í gegnum lögin og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara og flest af því skilar sér í því frumvarpi sem liggur fyrir núna. Það er samráðið sem ég á við hér. Við höfum átt mjög gott samstarf við fjármálaráðuneytið um þessi verkefni allt fram á þennan dag enda þótt kostnaðarmatið sé með þessum hætti. Ég valdi einfaldlega að svara þessu hér vegna þess að það var búið að dreifa frumvarpinu til allra þingmanna án þess að við hefðum getað svarað þessu beint til allra en við munum að sjálfsögðu gera það í nefndinni.