140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu og vil byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að mér líst mjög vel á tillögu hans um að það verði fastur viðburður að við ræðum hér ályktun Íslenskrar málnefndar og hvernig íslenskri málstefnu vindur fram. Eins og við munum var þingsályktun um íslenska málstefnu samþykkt á Alþingi 12. mars 2009. Meginmarkmið íslenskrar málstefnu er að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni. Í málstefnunni er lýst í 11 köflum hvert ástand tungumálsins sé á mikilvægum sviðum þjóðlífsins og hvernig horfurnar séu, markmið eru sett og Íslensk málnefnd leggur svo til aðgerðir sem má nota til að ná þeim.

Í nýrri ályktun Íslenskrar málnefndar er ekki síst fjallað um íslenskukennslu og íslenskunám. Ég vil minna okkur sem hér erum á að í kaflanum um leik-, grunn- og framhaldsskóla í íslenskri málstefnu er einmitt rætt um að efla þurfi kennslu í íslensku í grunnskólum og gera hlutdeild móðurmálsins hér á landi líkari því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þessum tilmælum hefur verið fylgt. Nú hefur hlutfall móðurmálskennslu verið aukið í viðmiðunarstundaskrá fyrir nýja aðalnámskrá grunnskóla sem sett var á þessu ári. Hlutfall móðurmálskennslu fer úr 16,1% upp í 18,08%, svo það sé nú nægilega nákvæmt, og færist þá meira í átt til þess sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndum.

Annað lykilatriði í málstefnunni er að íslenskukennslan þurfi að standa undir nafni og íslenskukennarar eða kennarar í grunn-, leik- og framhaldsskólum þurfi að hafa trausta kunnáttu í íslensku. Í málstefnunni segir að námskrár menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hug- og vísindadeildar Háskólans á Akureyri taki ekki nægilega mikið mið af þessu veigamikla hlutverki og lýst er áhyggjum af því að dregið hafi úr íslenskunámi í kennaranámi hér á landi. Ákveðinn misbrestur hefur orðið í þessum málum því kennaranemar geta nú lokið námi án þess að hafa fengið eitt námskeið í því sem við köllum íslensku á háskólastigi. Nokkrir íslenskuáfangar eru hins vegar í kjarna grunnskólakennaranámsins við Háskólann á Akureyri og því er málum ólíkt háttað hjá þeim tveimur stofnunum sem mennta kennara.

Ég vil greina frá því, í ljósi þess að hv. þingmaður spurði um samskipti ráðherrans við menntavísindasvið Háskóla Íslands, að í janúar 2011 beindi ég þeim tilmælum til menntavísindasviðs að taka tillit til ábendinga Íslenskrar málnefndar sem vörðuðu kennslu og menntun kennara í íslensku á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Þau tilmæli voru send í kjölfar ábendinga um að ekki hefði verið brugðist nægilega vel við ákvæðum í íslenskri málstefnu frá 2009 um hlut íslenskunnar í kennaranámi. Um þetta er enn rætt, getum við sagt, innan háskólans og innan menntavísindasviðs. Ég held hins vegar að ýmislegt í umhverfinu sýni okkur að mjög mikilvægt er að þessi mál verði tekin föstum tökum.

Við gátum fagnað því að þegar niðurstöður síðustu PISA-könnunar frá árinu 2009 voru birtar, sáum við að lesskilningur stefndi upp á við en eigi að síður sjáum við líka að rannsóknir benda til þess, eins og hv. þingmaður nefndi í upphafi máls síns, að börn og ungmenni lesa æ minna sér til skemmtunar. Mjög margt spilar þar inn í. Þegar skyggnst er undir yfirborðið, til að mynda í PISA-könnuninni, sjáum við að skólinn hefur þar vissulega áhrif en líka að áhrif foreldra eru gríðarleg, bókaeign heimila og annað slíkt. Ég lít svo á að hlutverk skólans sé að tryggja að allir fái sömu tækifæri til að geta lesið sér til skilnings, gagns og ánægju. Það eigi að vera markmiðið þó að það gangi kannski aldrei fullkomlega vegna þess að aðstæður manna eru að sjálfsögðu misjafnar.

Ég tel því mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál sérstaklega, ekki síst í ljósi þess að í nýrri námskrá er læsi einn af sex grunnþáttum sem ástæða er til að leggja sérstaka áherslu á, allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Þetta snertir hins vegar mál sem snýr að því hvaða frelsi háskólar hafa til að haga málum sínum sjálfir. Við sjáum til að mynda að mjög mikil umræða er í alþjóðasamfélaginu um hvernig við skipuleggjum kennaramenntun og hvaða kröfur við gerum til hennar, bæði á vettvangi OECD, Evrópusambandsins, Evrópuráðsins og Alþjóðlegu kennarasamtakanna. Ég held að þá skipti mjög miklu máli hvaða skilaboð löggjafinn og hið pólitíska vald hefur fram að færa varðandi kennaramenntun, til að mynda hvað varðar þessi mál.

Það stendur fyrir dyrum að ég fundi á næstunni með forsvarsmönnum menntavísindasviðs til að ræða skipulag kennaramenntunar og þar mun ég líka færa fram þau skilaboð sem ég fæ hér í þessari umræðu.