140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja máls á því máli sem við ræðum hér. Líkt og aðrir ræðumenn vil ég taka undir það með hv. þingmanni að rétt sé að ræða hér að minnsta kosti einu sinni á ári stöðu íslenskrar tungu og þá samþykkt sem við erum að ræða að verði gerð. Ég held að það sé vel við hæfi.

Við vitum auðvitað öll að aðgangur að bókum og tækjum til að lesa bækur og slíkt er misjafn á heimilum. Ég var því mjög sammála ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar áðan um að við ættum að íhuga mjög vandlega hvernig hægt sé að auka málskilning og lestur og fara í gegnum þá hluti alla hvernig við getum varðveitt tunguna. Ég held að það mætti gera einmitt með því að rannsaka umhverfið og aðferðir, fara í gegnum allan þann strúktúr og pakka sem er í kringum okkur, því að líkt og bent hefur verið á þurfa svo margir aðilar að koma að ef við ætlum að gera gangskör í þessu máli.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég hugsa til baka — það er kannski ekki við hæfi, ég veit það ekki — til sjónvarpslausu fimmtudagskvöldanna þegar maður las bækur vegna þess að það var ekkert annað að gera. Ég er kannski ekki að leggja til að farið verði aftur til baka til þeirra tíma, en mér finnst hins vegar mjög skemmtilegt að vita til þess að yngstu synir mínir liggja uppi í rúmi á kvöldin hjá móður sinni fyrir norðan og lesa bækur áður en þeir fara að sofa. Það er eitthvað sem ég held að hvetja ætti til, að foreldrar hvetji börn sín til að lesa meira, hvort sem það er gert á gamaldags pappír eða með nýjustu tækni eins og sumir þingmenn eru að gera einmitt núna.