140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka þátttakendum í þessari umræðu fyrir framlag sitt. Ég tel að framlagið og þessi umræða sýni að það er þörf á þessu, ég segi nú ekki einu sinni í mánuði eða einu sinni í viku en að minnsta kosti einu sinni á ári á þeim grunni sem löggjafinn hefur búið til með því að skipa Íslenskri málnefnd að semja þessa ályktun. Ég þakka líka fyrir mjög jákvæð viðbrögð við þessari tillögu minni um að þetta verði gert.

Kannski tvennt sem mér finnst hafa komið hér fram. Það er auðvitað þetta um skólann. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni — eða hvort það var hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir — að það þýðir ekki að æpa alltaf á skólann, hann kemur ekki í staðinn fyrir foreldra, og hjá Þráni, hann kemur ekki í staðinn fyrir umhverfið, það er rétt. Það er hins vegar þannig að við ráðum svolítið yfir skólunum en minna yfir umhverfinu og eiginlega ekkert yfir foreldrunum. Svo er það auðvitað líka þannig að skólinn á að vera útjafnarinn. Hann á að vera sá sem lyftir þeim sem verst standa, þeim sem koma frá erfiðustu heimilunum. Hann á að veita mönnum jöfn tækifæri til þátttöku í lífinu, börnunum og hinum fullorðnu.

Á hitt er svo bent og hafa ýmsir gert, Siv Friðleifsdóttir hv. þm. meðal annars, að það er komin ný tækni. Við stöndum auðvitað á ákveðnum þröskuldi nýrra tíma með rafbækurnar og lesbrettin. Ég held að það sé alveg klárt að sumum hentar það betur. Til dæmis hefur verið bent á að lesbrettin eða lestölvurnar geti nýst börnum sem eiga við lesblindu að stríða eða slíka erfiðleika, þannig að það er auðvitað mjög spennandi.

Ég þakka svo hæstv. menntamálaráðherra fyrir afskipti hennar af málinu hingað til og segi þetta: Mér skilst að námið sé 300 einingar eða hvað þetta heitir og 120 þeirra séu fráteknar fyrir sérfræðina, 120 fráteknar fyrir hina miklu aðferðafræði sem kennarar þurfa að kunna og þá eru 60 eftir fyrir íslensku og kannski fyrir stærðfræði líka. Þegar þetta mál vaktist upp fóru einmitt stærðfræðikennarar og stærðfræðiáhugamenn (Forseti hringir.) að benda á að það væri kannski svolítið líkt með þessum tveimur grunngreinum í kennaranáminu að hvort tveggja væri vanrækt (Forseti hringir.) íslenskan og stærðfræðin.