140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[14:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum og þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Mig langar að nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi sjáum við jákvæða þróun í því að lesskilningur stefnir aftur upp á við. Þegar við horfum á þetta í lengri tíma samhengi erum við enn ekki búin að ná þeim árangri sem við hefðum viljað ná en við höfum farið talsvert upp á við ef við berum saman niðurstöður 2009 við árið 2000. Við skulum líka muna eftir því að það er auðvitað búið að vinna talsvert mikið þróunarstarf úti í skólasamfélaginu í lestrarkennslu og læsismálum. Það má ekki vanmeta það þó að við sjáum kannski ekki árangurinn af því strax. Mjög mikið af nýjungum er í gangi hvað varðar lestrarkennslu, til að mynda er verið að prófa núna tilraunakennslu með einmitt lesbrettum í grunnskólum til að sjá hvernig þau virka.

Ég hef hins vegar ákveðna trú á því sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir nefndi, að eitt eru tækin en síðan skiptir inntakið auðvitað máli, þ.e. að áfram séu búnar til skemmtilegar bækur og skemmtilegt lesefni fyrir börn og ungmenni þannig að þau hafi áhuga á að lesa. Við getum líka verið ánægð með það að við eigum marga góða höfunda.

Ég tek undir með henni þegar hún bendir á að barnabækur fá miklu minna vægi en svokallaðar fullorðinsbækur. Þeim er ekki hampað á sama hátt. Þær fá ekki Nóbelsverðlaun í bókmenntum og þær fá ekki Norðurlandaverðlaun í bókmenntum. Þetta er auðvitað athugunarefni þegar við veltum fyrir okkur stöðu þessara bóka sem skipta samt svo miklu máli ef við viljum horfa til læsis og lestrar barna og ungmenna því að þau hafa alltaf áhuga á góðum sögum. Þau fá kannski sögurnar með öðrum hætti núna en þau fengu þær, þau fá þær mun fremur í gegnum myndmál, kvikmyndir, sjónvarpsefni, en þau hafa áhuga á góðum sögum og þá skiptir máli að þau hafi aðgang að þeim.

Ég þakka fyrir umræðuna. Ég mun eins og ég sagði áðan funda á næstunni með forsvarsmönnum menntavísindasviðs og bera þeim tóninn héðan úr umræðunni, að það sé mikill áhugi á því hvernig við skipuleggjum þetta nám til framtíðar litið og að þar verði litið til málstefnunnar.