140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp inn í þingið því að ég held, alla vega miðað við það sem ég hef náð að lesa í frumvarpinu, að þetta sé einfaldlega mjög gott mál, að verið sé að laga þessa umgjörð, gera hana skýrari og með þeim hætti að hægt er að breikka þá stofna sem geta komið til endurgreiðslu. Þessi hluti af kvikmyndagerðinni er gríðarlega mikilvægur, hann er mikilvægur á svo margan hátt og í rauninni mikilvægari mörgum öðrum þáttum en eingöngu kvikmyndagerð.

Ræðan var samt svolítið merkileg áðan hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni um Landsvirkjun og um fjármálaskrifstofuna, sú umfjöllun. Ég verð að leyfa mér að segja — ég ætla ekki að fara út í mikla virkjanaumræðu undir liðnum kvikmyndagerð — að sá ágæti forstjóri sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni tekur að sjálfsögðu við skilaboðum úr sama ráðuneyti og þessi sérkennilega umsögn kemur frá og spurning hvort trúverðugleikinn sé svipaður á báðum stöðum.

Þessi umsögn sem hæstv. ráðherra gerði hér vel skil og fór mjög ítarlega yfir er vitanlega alveg með endemum svo ekki sé meira sagt. Vera kann að umræðuna um umsögnina sé hægt að nálgast á ýmsan hátt, en ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mjög sérkennilegt að fá svona umsögn sem hreinlega lítur út eins og hún sé skrifuð í einhverju fýlukasti en það er kannski ekki rétt að segja slíkt.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt fyrir okkur, frú forseti, án þess að reyna að hefta þá sem þurfa að skrifa umsagnir, að reyna að taka út einhverjar pólitískar — þá meina ég kannski atvinnupólitískar skoðanir eins og þarna koma fram. Þetta er mjög sérstakt.

Í 1. gr. er verið að skýra þann kostnað eða þá hluti sem geta komið til endurgreiðslu, það er mjög gott að fara í gegnum þetta á þennan hátt. Endurgreiðslan, 20% — eða á það að vera eitthvað meira eða eitthvað minna? Á því getum við haft skiptar skoðanir. Ég hef verið fylgjandi því að jafnvel ætti að hækka þetta örlítið en get alveg tekið undir að það þyrfti kannski ekki að gera því að við megum passa okkur líka á því að landið verði ekki einhvers konar — ja, ég veit ekki hvað á að kalla það — afsláttarland þar sem hlutirnir skilja ekkert eftir sig. Þar erum við náttúrlega komin að því sem margir hafa rætt um, að styrkir til kvikmyndagerðarinnar, hvort sem það er akkúrat þessi endurgreiðsla eða beinir styrkir, skila sér margfalt í samfélagið. Það er ekki hægt að horfa á frumvarpið eða þessi mál án þess að nefna að það að mynd sé tekin í íslenskri náttúru, á Íslandi, sýnd í sjónvarpi eða auglýsingar sýndar um allan heim, er einhver besta landkynning sem við fáum á íslenskri náttúru, sem er eitt helsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustu. Tekjur af kvikmyndagerð eru nokkrar, góðar beinar tekjur, og það sem kemur af afleiddum störfum eða sem aukaafurð í gegnum ferðaþjónustu eða slíku er mjög mikið, fullyrði ég.

Bent hefur verið á hversu mörg störf eru í kvikmyndagerðinni, ég ætla ekki að fara í gegnum það, þetta er ágætlega rökstutt allt saman.

Það er eitt í 4. gr. sem ég velti aðeins fyrir mér, sem ég hvet nefndina til að fara í gegnum, og það er þetta 20 millj. kr. mark. Jú, það er ákveðinn kostnaður sem felst í því að fá uppáskrift endurskoðanda en ég er ekki viss um að við eigum að gefa einhvern afslátt af því þó svo að það sé einhver kostnaður því að það er mikilvægt fyrir okkur að allt þetta kerfi sé mjög trúverðugt og við stöndum ekki uppi með það að vera eitthvað að slugsa með fjármuni þó að þeir séu undir 20 milljónum. Ég held að menn ættu að skoða þetta og þetta er ekki þannig mál að það eyðileggi frumvarpið eða neitt svoleiðis.

Af því að við vorum að tala um íslenska tungu þá kemur fram í athugasemdum við 3. gr., þ.e. þar stendur: „Í 4. mgr. 4. gr. laganna er með pósitífum hætti talið upp efni …“ Það getur vel verið að þetta sé gott íslenskt orð, pósitíft, en ég hefði haldið að þarna ætti að standa: með jákvæðum hætti.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég vona að nefndin fari hratt en vel yfir frumvarpið og það hlýtur að vera freistandi fyrir nefndarmenn að kalla fulltrúa fjármálaráðuneytisins á sinn fund til að fara aðeins yfir sérfræðiþekkingu þeirra á kvikmyndagerð.