140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[14:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína þar sem ég endaði í andsvari við hv. þm. Þráinn Bertelsson. Hann sagði að mjög mikilvægt væri að hafa hæstv. iðnaðarráðherra sem skildi atvinnulífið. Ég tek undir þessi orð hv. þingmanns. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra sé ein af fáum í hæstv. ríkisstjórn sem skilja almennt atvinnulífið og nauðsyn þess að setja súrefni þar inn til að geta staðið undir velferð í landinu.

Ég verð þó að taka fram, virðulegi forseti, áður en ég fer efnislega í málið, að haustið 2009 kom upp sama staða, menn voru að setja upphæðir í fjáraukalög vegna þess að gert var ráð fyrir að meiri pening þyrfti til til að standa við lög um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar. Þegar fulltrúar kvikmyndagerðarmanna komu á fund hv. fjárlaganefndar lögðu þeir fyrir nefndina æðigóð gögn að mér fannst og ég las mjög gaumgæfilega þar sem bent var á mikilvægi endurgreiðslnanna og styrkjanna. Eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson kom inn á í seinna andsvari sínu, þá þurfa kvikmyndagerðarmenn, til að geta sótt um styrki erlendis, að hafa fengið þá viðurkenningu og í raun gæðastimpil frá íslenskum stjórnvöldum eða forsvarsmönnum Kvikmyndasjóðs sem felst í styrkjunum. Það mættu fleiri taka sér þetta til fyrirmyndar og gera eins og þarna er gert þegar menn sækja um fjármagn til ríkissjóðs.

En ég verð þó aðeins að halda áfram með það sem ég nefndi í orðaskiptum mínum við hæstv. iðnaðarráðherra áðan. Mér fannst hæstv. iðnaðarráðherra fara töluvert bratt í ræðu sinni þar sem hún sagði …

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur til þess að það sé aðeins einn fundur í salnum.)

Það er mjög æskilegt, takk fyrir virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra hélt því fram að umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins væri í raun og veru pólitísk yfirlýsing og pólitískt plagg. Þó að hæstv. ráðherra nefndi í sjálfu sér engin nöfn, og ég er ekki að halda því fram að hún sé að vega að einstökum einstaklingum, hefði ég talið heppilegra að óskað væri eftir því að hv. atvinnuveganefnd eða hv. fjárlaganefnd kallaði eftir frekari rökstuðningi því að hæstv. ráðherra nefndi til gögn og töluverðar upplýsingar sem hún benti á að væru á skjön við það sem kæmi fram í umsögninni.

Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við getum treyst umsögnum sem þessum. Sú spurning situr eftir í huga mér þegar við upplifum svona hluti, þ.e. þegar því er haldið fram að umsögn fjármálaskrifstofu ráðuneytisins sé pólitísk, hvort slíkum umsögnum megi treysta. Fjármálaskrifstofan gefur umsagnir um öll lagafrumvörp og ég les þær mjög gaumgæfilega þar sem ég á sæti í hv. fjárlaganefnd. Standist þessi skoðun hæstv. iðnaðarráðherra þá setur það ekki einungis spurningarmerki við þetta frumvarp heldur öll þau frumvörp sem lögð eru fram og fjárlagaskrifstofan gefur umsögn um. Ég hefði talið heppilegra að hv. atvinnuveganefnd mundi kalla eftir þessum upplýsingum frá fjármálaskrifstofunni, og ég efast ekki um að það verði gert, og mundi biðja þá einstaklinga sem standa á bak við þetta álit að gefa skýringar og bregðast við ummælum hæstv. ráðherra. Það er ekki gott að þeir sem skrifa þetta álit geti ekki brugðist hér við og svarað fyrir þau rök sem þeir færa fyrir álitinu. Ég vil að það komi algerlega skýrt fram að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þetta þannig að ég get ekki lagt mat á hvað sé rétt í þessu, ég hef engan grunn til þess. En ég staldra hins vegar við þetta og mér finnst stærsta spurningin eftir þetta vera sú hvort við eigum að lesa umsagnir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvörp, hver sem þau eru, með þeim hætti að í þeim gætu verið einhver pólitísk skilaboð.

Ég vil þó líka taka undir það sem hæstv. iðnaðarráðherra benti á í andsvari við mig að auðvitað er ekki eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra sé að skipta sér af umsögninni og hafa áhrif á hana. Ég er alls ekki að mælast til þess. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að frumvörp komi ekki fram með þessum hætti og ferlið endi með því að hér séu höfð uppi stór orð.

Ég vil þá koma inn á eitt, virðulegi forseti, sem ég held að sé mjög mikilvægt að við ræðum. Ég hef rætt það töluvert hér að miðað við hvernig þetta kerfi virkar getum við aldrei náð tökum á ríkisfjármálunum. Það getur ekki gengið að þegar við samþykkjum fjárlög á hverjum tíma, þá séu í raun og veru einhver önnur lög sem hugsanlega ganga þeim framar, þ.e. lög sem segja til um það hvernig við ætlum að styrkja atvinnuuppbyggingu eða rekstur stofnana eða hvað það nú heitir. Þannig munum við aldrei ná aga í ríkisfjármálum. Ef Alþingi samþykkir að veita fé til ákveðins málaflokks, sama hvað hann heitir, í þessu tilfelli endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, sem er kannski hækkaður um hundruð milljóna í fjáraukalögum þá verður að vera alveg á hreinu hvernig það á að gerast. Það er algerlega útilokað að samþykkt séu fjárlög upp á ákveðnar tölur, eins og í þessu tilfelli til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar, en reyndin sé síðan sú að það þurfi allt aðrar og meiri upphæðir til að standa við gefin loforð. Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra og þeir sem fara með þessi mál geri sér grein fyrir því að allir verða að fara að fjárlögum, annars hefur það engan tilgang að fjalla um fjárlög. Hér ræða menn hvort það eigi að fara 5 millj. kr. eða 10 millj. kr. til heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana, menntastofnana og þar fram eftir götunum en síðan erum við með eins konar opna heimild þar sem við bregðumst við eftir á. Það er mikilvægt að skilaboðin um það eftir hverju er unnið séu alveg á hreinu. Er verið að vinna eftir sérlögum um ákveðna þætti eða fjárlögum? Ef það er ekki á hreinu er mín skoðun sú að þá munum við aldrei ná tökum ...

(Forseti (ÁI): Forseti vill ítreka beiðni sína um að hér standi einn fundur í sal.)

Takk fyrir það, virðulegur forseti. Hér voru þrír fundir í það minnsta. Það er nú oft sagt að karlmenn geti bara gert eitt í einu, og ég get ekki bæði talað og hlustað í einu, þannig að ég þakka hæstv. forseta fyrir að koma ró í salinn.

Þegar fjallað er um fjárlög og verið að taka ákvarðanir um fjárútlát ríkissjóðs er mikilvægt að það sé alveg á hreinu til hvaða málaflokks viðkomandi upphæðir eiga að renna en ekki að við sitjum uppi með það að eftir á komi beiðnir um stórar upphæðir. Öðruvísi getum við aldrei náð tökum á ríkisfjármálunum.

Þetta er eitt af því sem kemur fram í skýrslu fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009. Þar gera menn sér grein fyrir því að ef við ætlum að ná tökum á ríkisfjármálunum í heild sinni verðum við að breyta um vinnubrögð á mörgum, mörgum stöðum. Það varðar sérstaklega sértekjur og markaðar tekjur og hægt væri að halda langar ræður um það hversu mikilvægt er að ákveðnar stofnanir séu reknar innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi samþykkir en ekki að við notum fjáraukalögin til þess. Fjáraukalögin eru hugsuð til að bregðast við því sem kemur óvænt upp á og er ekki hægt að sjá fyrir við gerð fjárlaga. En svona hefur þetta þróast á undanförnum áratugum. Þetta snýst ekki um núverandi stjórnvöld heldur bara það agaleysi sem verið hefur í ríkisfjármálum. Það er búið að þróa lokafjárlög og ríkisreikning í það að vera eins konar aukafjáraukalög. Þar koma fram upplýsingar sem, eins og ég benti á í ræðu minni um daginn, standast í raun og veru ekki reglur um hvernig eigi að fara með fjármál ríkisins gagnvart fjárreiðulögum af því að ákvörðun hefur verið tekin um að eyða peningunum, það er búið að ráðstafa þeim. Ef hv. Alþingi telur að ekki séu rök fyrir aukafjárveitingunum og er ekki tilbúið að samþykkja þær er samt búið að ráðstafa þeim, það er ekki hægt að bregðast við. Ef við breytum ekki þessum vinnubrögðum munum við aldrei ná þeim aga í ríkisfjármálum sem er mjög mikilvægt að náist núna.

Ég held að enginn í þessum sal deili um það hversu mikilvægt er að geta lokað fjárlagagatinu. Við getum verið sammála um að við erum að greiða blóðpeninga í vaxtagjöld, það er reiknað með að þau verði upp undir 80 milljarðar á næsta ári. Það er gríðarlega mikilvægt að geta notað þá peninga í velferðarkerfið og uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Þess vegna er brýnt að taka þessa umræðu og það verði rætt í hv. atvinnuveganefnd og hv. fjárlaganefnd hvernig menn vilja að þetta virki, akkúrat eins og í því tilfelli sem við fjöllum um hér, hvort það séu fjárlögin sem virka en ekki einhver önnur lög um ákveðna þætti. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé gert.

Ég vil hins vegar taka það sérstaklega fram að þegar fulltrúar úr iðnaðarráðuneytinu hafa mætt til fundar í fjárlaganefnd, hafa þeir iðulega gert hv. fjárlaganefnd grein fyrir því hvernig staðan er og ekki sé búið að greiða út þær endurgreiðslur sem hugsanlega er búið að samþykkja og mönnum hefur verið gerð grein fyrir því að til þess að lántakandi geti greitt þær út samkvæmt lögum um endurgreiðslu þá þurfi annaðhvort að koma til fjáraukalaga eða hugsanlega til fjárveitingar á næsta ári. Um þetta hefur verið staðinn styrkur vörður og það ber að þakka, þó svo að kannski hafi gerst eitthvert ákveðið slys á stuttu tímabili sem ég ætla ekki að gera veður út af hér. En þetta er gríðarlega mikilvægt.

Þetta kemur líka fram í skýrslu sem hv. fjárlaganefnd skilaði til þingsins, við öll sem sátum í nefndinni, ellefu talsins, vorum sammála um þetta. En síðan höfum við í raun og veru ekki tekið skýrsluna til umfjöllunar hér á þingi, sem er mjög bagalegt, skýrslan kom fram á vorþinginu. Það er svo mikilvægt að við fylgjum því eftir að gera þessar breytingar, einmitt til að ná tökum á ríkisfjármálum.

Ég vil líka minna á, og ég held að allir hv. þingmenn eða að minnsta kosti flestir þingmenn séu meðvitaðir um það, að þegar menn eru að taka á því vandamáli sem fylgdi í kjölfar efnahagshrunsins og loka þurfti mjög stóru gati í ríkisfjármálunum, að það er alltaf erfiðast að loka síðasta kaflanum í þeim hluta. Þá er búið að fara í allar þær aðgerðir sem menn telja hægt að fara í, hvort heldur það er niðurskurður eða skattahækkanir eða annað. En þá er mikilvægt að menn standi saman og bregðist ekki í því hlutverki sínu að ná tökum á ríkisfjármálum í heild sinni.

Ég ætla ekki, eins og ég hafði ætlað mér eftir að hafa lesið frumvarpið í gærkvöldi, að fjalla efnislega meira um það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar því að ég vænti þess að sú efnislega umræða fari fram í nefndinni. Ég sé engan tilgang í því og það er ekki málinu til framdráttar eða neinum að takast á um einhverja hluti sem hvorki er hægt að fullyrða um né fullvissa sig um að séu eins og þeir eru. Ég bind miklar væntingar við að hv. atvinnuveganefnd fari yfir málið og kalli til sín, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað, fulltrúa frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til að fara yfir þetta. Fyrst formaður þeirrar nefndar situr í þingsal held ég að það væri til umhugsunar fyrir hv. nefnd að fela hugsanlega hv. fjárlaganefnd að fara yfir umsögn fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins ef þeir telja þörf á því. Ég tel að minnsta kosti mjög mikilvægt að farið sé yfir þennan hluta og leiðréttur misskilningur ef hann er fyrir hendi, svo við lendum ekki í því að ræða um eitthvað sem við vitum ekki nógu mikið um við 2. og 3. umr. heldur getum rætt þetta á vitrænum nótum.