140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[15:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er liðinn tími frá því að þessi lög voru samþykkt, komið á fjórða ár, og ég óskaði eftir því að farið yrði yfir hvernig reynslan hefði verið af sjúkratryggingunum hingað til, hvað þyrfti til að ljúka uppbyggingu Sjúkratrygginga miðað við frumvarpið og hvernig það liti út í framhaldinu. Þessi vinna hefur verið í gangi en að vísu höfum við unnið við óeðlilegar aðstæður vegna þess að við höfum ekki haft svigrúm til að byggja neitt upp í kringum þessa starfsemi eða að bæta neinu við. Við höfum í raun skorið niður rekstur Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga á þessu tímabili eins og allt annað í samfélaginu meðan við erum að aðlaga okkur nýjum veruleika varðandi tekjur og útgjöld.

Það er sú vinna sem farið hefur fram. Í því hefur ekki falist nein stefnumótun enn þá um hvað tekur við eða hvort fyrirkomulagið verður óbreytt áfram varðandi Sjúkratryggingar og Tryggingastofnun. Ég vil gjarnan fá svigrúm til að ljúka þeirri vinnu, enda finnst mér mjög eðlilegt ef við ætlum að fara leiðina til enda eins og lagt var upp með 2007, og takið eftir hvaða ár ég nefni, að við vitum hver kostnaðurinn er og hvenær við munum eiga fyrir því að gera þetta.

Sumir segja að hægt sé að færa til starfsfólk og það eigi að duga til að sinna verkefninu. Ég hef sjálfur verið ósáttur við það, þ.e. samhengið á milli þess sem ráðuneytið leggur upp með og þess hvaða grundvöll eigi að leggja til samninga. Síðan taka Sjúkratryggingar við og þær eiga að semja. Ég vil búa til eitt teymi úr þessu og tryggja að menn vinni í sama liðinu til að ná árangri í samningum. Það er auðvitað gríðarlega mikið og vandasamt mál og skiptir mjög miklu máli hvernig til tekst. Það er eiginlega það eina sem liggur í orðunum, engin stefnumótun hefur átt sér stað í framhaldi af þessum athugunum sem þó eru að hluta til enn þá í gangi.