140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[16:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svarið. Hann vakti athygli á ártalinu sem hann nefndi, 2007. Ég tel ekki, þrátt fyrir að komið hafi fram frumvarp og gerðar hafi verið breytingar og skipti með því frumvarpi, að kostnaðarhlutdeild hafi aukist eða farið fram úr áætlun þó að það hafi verið gert á árinu 2007. Það var einfaldlega verið að aðskilja sjúkratryggingar og almennar félagstryggingar. Þessir tveir þættir voru að mati þeirra sem stóðu að því frumvarpi ólíkir og áttu ekki heima á sama stað, þess vegna voru þættirnir aðgreindir.

En ég get fallist á það með hæstv. ráðherra að stefnumótun, vinna og skoðun um hvað gera megi betur, hvort heldur er í ríkisrekstri eða í hvaða rekstri sem er, að það skiptir máli. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli ætla að fara yfir það og leggja á borðið niðurstöður um hvernig hlutunum verði best fyrirkomið, hvort skynsamlegt sé að færa þessa starfsemi aftur undir einn hatt eða hvort einstök verkefni eigi frekar heima á einum stað en öðrum. Þá liggi að baki því betri rökstuðningur en ég tel að hafi verið þegar Lýðheilsustöð og landlæknisembættið voru sameinuð og verkefni færð á milli. Þau voru ekki sameinuð í raun, önnur stofnunin var lögð niður og verkefni hennar færð til þannig að þar var ekki nægur rökstuðningur að mínu mati. Ég óska hæstv. velferðarráðherra góðs gengis í því verkefni sem hann ætlar sér í hvað þetta varðar.