140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslendinga.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að tala um skyndiákvarðanir eða taugaveiklun heldur ferli sem hefur verið í gangi í tvö ár og löngu orðið tímabært að Íslendingar fari að búa sig undir að bregðast við stöðu mála.

Það er mjög undarlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala á þeim nótum að það megi ekki ræða vandann og hugsanleg viðbrögð við honum, menn eigi bara að vona hið besta, sérstaklega í ljósi þess að nú erum við að horfa upp á Evrópusambandið ganga í gegnum ferli sem líkist um mjög margt því sem Ísland gekk í gegnum í aðdraganda efnahagshrunsins 2007 og 2008. Var þá rétt á þeim tíma að bíða bara og sjá til? Það mátti ekki tala um vandann af því að niðurstaðan gat orðið svo slæm að það var á einhvern hátt óviðeigandi að búa sig undir hana.

Hér er ekki verið að tala um neinar skyndiákvarðanir heldur einfaldlega að bregðast við aðstæðum sem eru orðnar mjög ljósar. Því spyr ég aftur hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna dregur hann Samfylkinguna áfram í Evrópusambandsvegferðinni þar sem engu má breyta og ekkert endurskoða, og er jafnvel tilbúinn til að losa sig við sinn eigin ráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svo hann trufli ekki þá vegferð?