140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslendinga.

[15:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það væri fróðlegt að spyrja hv. þingmann og aðra sem leggja til frestun á þessu í nokkra mánuði, missiri, tvö ár: Hver er hugsunin á bak við það? Hvernig sjá menn svo framhaldið fyrir sér, t.d. í Framsóknarflokknum? Er skynsamlegra að henda þessu máli, algerlega óútkljáðu, án þess að við séum nokkru nær, eitt tvö ár inn í framtíðina og byrja svo upp á nýtt? (Gripið fram í.) Úr því sem komið er, er ekki gæfulegra að láta að minnsta kosti reyna á eitthvað af grundvallarhagsmunum okkar í viðræðum þannig að við séum einhverju nær og virða síðan í framhaldinu þann vilja að þjóðin sjálf ákveði örlög sín í þessu efni í þjóðaratkvæðagreiðslu? Til þess þarf auðvitað að vera hægt að kjósa um eitthvað efnislegt, (Gripið fram í: Eins og hvað?) en ekki að menn hætti allt í einu eftir undirbúning viðræðna í eitt og hálft ár, þegar lagasamanburði er lokið en áður en farið er að reyna á nokkurn skapaðan hlut í viðræðum. Það finnst mér ekki mjög góð útkoma. Þá hefur tímanum og peningunum sem í þetta hafa farið (Forseti hringir.) verið illa varið. Ég vil enn trúa því að hægt sé að fá fram efnislega niðurstöðu með einhverjum hætti sem við getum tekið afstöðu til, eftir atvikum á þingi eða þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að við séum (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) einhverju nær til framtíðar litið og getum tekið mið af því í mótun peningastefnu okkar og annarra hluta sem þessu tengjast.