140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

yfirlýsing um forsendur kjarasamninga.

[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú deili ég ekki við hæstv. fjármálaráðherra um að einhverjar bætur séu í fjárlagafrumvarpinu. Hins vegar er ljóst að mikill munur er á því og hvort staðið sé við þá viljayfirlýsingu sem var gefin og um það er deilt. Til hvers er þá verið, frú forseti, að gefa viljayfirlýsingar sem ekki er ætlunin að standa við? Það er ekki hægt að verja það með því að verið sé að gera eitthvað annað í staðinn, eitthvað annað komi á móti.

Í íslenskum rétti og í samningaréttinum er meginreglan sú að orð skuli standa og viljayfirlýsing felur í sér skuldbindingu af hálfu ríkisvaldsins. Þess vegna er mér spurn: Er ekkert að marka þegar ríkisstjórnin gefur út viljayfirlýsingar? Er hægt að skilja það þannig að viljayfirlýsing sé bara eitthvert plagg sem undirritað er en síðan sé það alfarið í höndum ríkisstjórnarinnar að túlka það út og suður og gera bara eitthvað allt annað í staðinn ef ríkisstjórnin telur að það sé sambærilegt? Hvert er svarið?