140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

lög og reglur um erlendar fjárfestingar.

[15:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Af svari hæstv. ráðherra mætti ætla að hann hefði fengið leiðbeiningar um hvernig hann gæti skotið sér fram hjá þeim viðkvæmu vörðum sem í spurningu minni fólust, þannig að ég geri aðra tilraun og skal reyna að vera heiðarlegur í þeim efnum líka.

Það liggur fyrir að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur skipað starfshóp, einn af ótal mörgum, meðal annars til þess að fara í gegnum þetta mál. Samkvæmt mínum bestu heimildum liggur fyrir að sá starfshópur mun hafa veg og vanda af því að leiðbeina hinum kínversku fjárfestum í gegnum reglugerðaskóginn. Þar sem ég veit til þess að fyrrverandi samgönguráðherra er einn af þeim leiðbeinendum vænti ég þess að hæstv. innanríkisráðherra geti svarað mér þeirri spurningu hvort innanríkisráðuneytið muni koma að því verki með þessum ágæta starfshópi sem ku hafa hafið störf.