140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þingsköpum hef ég heimild til að ræða um fundarstjórn forseta. Það hvarflar ekki að mér að taka aftur upp þá efnislegu umræðu sem átti sér stað hér fyrr vegna þess að hún var því miður ekki mjög efnisleg.

Það sem ég vildi hins vegar ræða við hæstv. forseta er hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða þennan lið. Það er sök sér þó að ráðherrar víki sér undan spurningum eftir bestu getu en það er annað þegar þeir svara ekki þeim spurningum sem til þeirra er beint. Kannski er það eðlilegt en þá spyr ég: Er eðlilegt að hafa á dagskrá lið sem ber heitið Óundirbúnar fyrirspurnir? Ég hef rætt þetta áður við hæstv. forseta. Ég geri það enn á ný og bið hana að endurskoða þennan lið sérstaklega vegna þess að þetta er eini opinberi vettvangur okkar alþingismanna, nefndirnar eru það ekki, til að fjalla um mál sem eru í brennidepli á hverjum tíma.