140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það gera sér allir grein fyrir því að mikið aðhald þarf í ríkisfjármálum þó að ákveðin lausatök séu hjá ríkisstjórninni nú um stundir. En ég er ekki komin hingað til að fara í skotgrafir út af framhaldsskólanum, ég held að hann sé okkur öllum sem munum taka þátt í þessari umræðu mjög kær og það er líka metnaðarmál fyrir okkur öll að hann sé sem sterkastur. Ég vonaðist til þess, þegar við stóðum frammi fyrir hruninu, að forgangsraðað yrði í þágu menntunar. Það hefur að vissu leyti verið reynt en að mínu mati ekki nóg. Ég held að réttast væri fyrir ráðherra að reyna miklu frekar að nýta þann samstöðuvilja sem er meðal allra flokka til að halda uppi öflugu mennta- og velferðarkerfi.

Ég segi þetta m.a. í ljósi þess að ég er að rýna í tillögur sem tengjast 3. umr. fjárlaga þar sem ekki er forgangsraðað í þágu menntunar. Ég hef talað við marga sem stýra skólunum, skólameistara sem og kennara, að undanförnu og þeir hafa allir verulegar áhyggjur af starfi og fjárhagsstöðu framhaldsskólanna miðað við núverandi aðstæður. Þeir hafa lengi mátt þola niðurskurð og það má líka draga fram að alveg frá árinu 2000 hefur átt sér stað mikil hagræðing innan framhaldsskólanna. Ég held að allir skólar síðan þá hafi hagrætt gríðarlega mikið á nær öllum sviðum í rekstrinum og það á ekki síst við um stóru tölurnar, þ.e. launin. Það fólst m.a. í því að námshópar voru stækkaðir, litlir og smærri hópar felldir niður og val nemenda þrengt. Jafnframt hafa framhaldsskólarnir tekið á móti sífellt stærri hluta grunnskólaárganganna og það er fagnaðarefni. Það er ekki skólaskylda í framhaldsskóla en allt að 96% þeirra sem klára grunnskólann fara í framhaldsskóla. Þetta eru því erfiðir tímar og erfið skref fyrir framhaldsskólana að mæta fjárhagsrammanum sem þeim hefur verið settur af því að þeir hafa nú þegar farið í gegnum mikla hagræðingu. Innan OECD hefur verið bent á að framhaldsskólastigið hér á Íslandi er hagkvæmt og vel rekið og það er næstódýrast að mig minnir meðal Norðurlandanna, aðeins Finnar reka ódýrara framhaldsskólastig.

Að mínu mati erum við komin inn í merg í framhaldsskólunum og meira að segja, eins og sumir hafa sagt, alveg inn í merginn. Það er rétt að draga fram að sumir skólar eru enn reknir með halla og ég fullyrði að ef rekstrarumhverfið breytist ekki geta þeir ekki greitt þær skuldir niður. Síðan eru líka til skólar sem ekki voru í halla og áttu hagnað til að fleyta sér yfir erfiðasta hjallann en þeir eru annaðhvort búnir með þann uppsafnaða hagnað eða hann mun ekki duga til að ná fram hallalausu rekstrarári árið 2012.

Rétt er að hafa líka í huga að þegar nemendaígildum fækkar, vegna þess að skorið er niður í kennslu og felld niður einstök fög eða heilar greinar, eru menn í raun komnir í vítahring sem mun vinda upp á sig. Færri nemendaígildi 2012 þýðir að skila þarf fjárheimildum sem því nemur í lok ársins og það þýðir að niðurskurðurinn vinnur gegn sér og ýtir enn frekar undir hallamyndun fyrir árin 2012, 2013 o.s.frv.

Einnig er vert að hafa áhyggjur af innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla frá árinu 2008. Ég tel því miður að stór mistök hafi verið gerð þegar ekki var farið strax í það árið 2009 að innleiða lögin því að þau hefðu svo sannarlega komið til móts við iðn- og starfsnám meðal annars. Ég hef áhyggjur af innleiðingu laganna og innleiðingu nýrrar námskrár. Það kostar að hafa kennara í vinnu við þetta verkefni og við verðum að horfast í augu við það.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af starfi innan framhaldsskólanna, ekki bara hinu faglega starfi sem tengist menntuninni sem slíkri heldur einnig öðru faglegu starfi eins og námsráðgjöf, félagslegri ráðgjöf og ekki síst stuðningi við nemendur og einstaklinga með sérþarfir. Það er mikið áhyggjuefni hvernig á að standa undir þessu.

Rétt er að draga fram einn lið sem hefur vaxið mjög meðal framhaldsskólanna og það er að kennarahópur innan framhaldsskólanna er að verða eldri. Það þýðir að þá geta þeir kennarar farið fram á svokallaðan kennsluskylduafslátt samkvæmt samningum. Ég veit til að mynda um skóla þar sem um fjórðungur starfandi kennara er á 60 ára afslætti. Þetta eykur allt saman á hallann hjá framhaldsskólunum á næstu árum.

Ég vil því spyrja ráðherra hvernig hún hyggst koma í veg fyrir að þrengri rammi framhaldsskólanna dragi ekki úr þjónustu þeirra og auki ekki brottfall úr námi. Hvernig ætlar hún að koma til móts við einstaklinga með sérþarfir innan framhaldsskólanna? Hvernig ætlar ráðherra að mæta hærri aldri framhaldsskólakennara og auknum kennsluafslætti sem þýðir aukinn halla í rekstri skólanna? Og hvernig (Forseti hringir.) ætlar ráðherra að koma til móts við þá skóla, ekki síst hér á suðvesturhorninu eins og Flensborg, Iðnskólann í Hafnarfirði, Menntaskólann í Kópavogi o.fl., sem hafa bætt við sig umframnemendum? Mun þeim ekki örugglega verða bætt það upp að hafa bætt við sig þeim nemendum sem þeim var gert að taka við?