140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[15:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég held að við getum alveg viðurkennt að þrátt fyrir mjög slæma stöðu ríkissjóðs hefur verið reynt að standa vörð um framhaldsskólana. En vegna þess hve þröng staðan hefur verið hefur þurft að fresta ýmissi nýsköpun í skólastarfi þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi bent á að menn hafi gert það sem þeir gátu innan þess ramma sem var til staðar.

Það sem ég hef sérstaklega haft áhyggjur af og hef rætt um við ráðherrann er sá mikli niðurskurður sem varð í fjar- og dreifnámi. Ég ítrekaði að mér hefði fundist mjög miður að þar skyldi hafa verið skorið niður og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef síðan fengið hefur ráðuneytið reynt að bregðast við því að einhverju leyti.

Ég tek líka fram að mér fannst mjög mikilvægt að það skyldi vera sett gólf hjá minni framhaldsskólunum. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er grunnkostnaður við að vera með skóla. Þegar við horfum á þá erfiðleika sem minni framhaldsskólarnir hafa verið í og síðan að dregið hafi verið úr nýsköpun í fjar- og dreifnámi — minn draumur tengist því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur undirritað um samstarf skólanna, að það verði til einhvers konar sýndarframhaldsskóli og minni framhaldsskólarnir geti tekið sig saman um á að bjóða upp á áfanga.

Síðan væri líka mjög áhugavert fyrir okkur sem höfum áhuga á þessum málaflokki að ræða það með hvaða hætti sveitarfélögin gætu í auknum mæli tekið að sér menntun barnanna okkar upp að 18 ára aldri þannig að við þau gætu tekið að sér það verkefni að mennta börnin og fjármagnað það samhliða. Reynsla (Forseti hringir.) fjölskyldna sem eru með börn í dreifðari byggðunum er að það er mjög sárt að horfa á eftir börnunum sínum við 16 ára aldur fara úr byggðarlaginu.