140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[16:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held að það viti á nokkuð gott að það voru eingöngu konur sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég held að það verði til þess að efla enn frekar framhaldsskólastigið og ég vona að hæstv. ráðherra hlusti á þær raddir sem hljómuðu hér því að mér fannst vera samhljómur í því sem við sögðum.

Ég ætla ekki að tala um hvað sú ákvörðun sem ráðherrann tók um frestun á innleiðingu laganna frá 2008 þýðir að mínu mat, frestun á því að efla enn frekar iðn- og starfsnám, frestun á því að auka samfellu í skólum, frestun á því að taka almennilega á brottfalli. Ég er búin að taka þá umræðu oft og mörgum sinnum.

Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því sem maður heyrir hjá forustufólki fólksins okkar innan skólakerfisins, hvort sem er innan framhaldsskólanna, úti á landsbyggðinni eða á suðvesturhorninu. Eins og ég gat um í ræðu minni hefur átt sér stað alveg frá aldamótum — við skulum draga það fram, ég er ekkert að miða við hægri eða vinstri, fyrir eða eftir hrun — mikil hagræðing innan framhaldsskólanna sem forustufólk og skólameistarar sem og aðrir hafa haft mikinn sóma af. Þeir hafa sýnt útsjónarsemi við það að mæta hagræðingarkröfu af hálfu ráðuneytisins um leið og þeir reyndu líka að efla starfsbrautir, efla námsframboð, efla fagkennslu o.fl. innan skólakerfisins.

Ég hef hins vegar aldrei heyrt hljóðið jafnþungt í skólameisturum og núna. Það er ekki lengur borð fyrir báru innan skólakerfisins, innan framhaldsskólans. Það skiptir öllu máli að ráðherra viti að hún hefur þennan stuðning af hálfu allra, stjórnar sem stjórnarandstöðu, í því að standa vörð um framhaldsskólann, standa vörð um það að við getum boðið upp á öflugt skólakerfi sem undirstrikar þá meginreglu sem hefur alltaf verið í íslensku skólakerfi, að hér gildi jafnrétti til náms. Því er ógnað með þeirri aðferð sem nú er boðuð í fjárlögum. Ef hæstv. ráðherra þarf einhvern kór með sér til að kalla enn hærra, því að mér finnst stundum sá ráðherra sem ber bumbur hæst í (Forseti hringir.) í tengslum við fjárlög fá sitt fram, verð ég að segja við hæstv. ráðherra: Ekki vera svona hógvær, farðu heldur fram með miklu meiri krafti. Þú hefur stuðning, vil ég segja, allra innan þingsins.