140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

155. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Fjármálalæsi er getan til þess að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjárhagslega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklinga. Það felur í sér getuna til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum.

OECD og Evrópusambandið hafa lýst yfir miklum áhyggjum af of litlu fjármálalæsi meðal neytenda og vakið máls á mikilvægi þess að bæta það, ekki síst hjá börnum og unglingum. Ástæðan er sú að fjármálaþjónusta er mun flóknari en áður og almenningur hefur takmarkaðri getu til að fylgjast með og taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar og sparnað í dag en áður. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga, ekki síst í því umhverfi sem við lifum í núna, að átta sig vel á þeirri áhættu sem fylgir mismunandi lántökum og sparnaði og þekkja hvaða sparnaðarleiðir og lánaform eru hagstæðust með hliðsjón af framtíðartekjum og greiðslugetu.

Árið 2009 fór fram rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga. Meðaleinkunn þátttakenda í þekkingarhluta könnunarinnar var 4,28 á skalanum 1–10, sem sagt fall. Til dæmis gerði einungis tíundi hver einstaklingur sér grein fyrir rekstrarkostnaði bifreiðar heimilisins og í könnuninni kom í ljós að menntun, tekjur, kyn og hjúskaparstaða höfðu marktæk áhrif á fjármálalæsi þátttakenda. Sérstaklega var fjármálalæsi ábótavant meðal tekjulægstu hópanna og þeirra sem höfðu litla menntun.

Hinn 13. ágúst 2008 skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að kanna stöðu fjármálalæsis á Íslandi og skilaði nefndin af sér skýrslu í febrúar 2009. Ein niðurstaða skýrslunnar var sú að lítil sem engin fræðsla væri í boði og fá námskeið skipulögð á vegum hlutlausra aðila fyrir almenna neytendur á sviði fjármálalæsis. Nefndin taldi brýna þörf á aðgerðum til úrbóta því að að mati nefndarinnar hefði almenningur ekki nægilega góða þekkingu á fjármálahugtökum og fjármálaþjónustu. Nefndarmenn voru sammála um að ekki skorti upplýsingaefni um þá þjónustu sem fjármálafyrirtæki bjóða í gegnum heimasíður sínar og bæklinga en óljóst er þó hversu hlutlaust efnið er, hversu mikið af efninu skilar sér til neytenda og hversu mikinn skilning neytendur hafa á því.

Í niðurstöðum nefndarinnar komu fram fjölmargar hugmyndir um það sem betur mætti fara og hvernig opinberir aðilar, stjórnvöld, gætu beitt sér til að bæta fjármálalæsi. Í þessu sambandi langar mig að beina spurningum til efnahags- og viðskiptaráðherra sem snerta neytendur. Í skýrslunni var eftirfarandi lagt til: Að viðskiptaráðuneytið skilgreini og kanni hvaða hópar þurfi mest á fjármálalæsi að halda, að viðskiptaráðuneytið tryggi að upplýsingar séu aðgengilegar og hlutlausar, að stjórnvöld veiti fjármálafyrirtækjum meira aðhald um upplýsingagjöf og ráðgjöf, að stjórnvöld styðji við bakið á samtökum og stofnunum til þess að halda úti heimasíðu þar sem veittar yrðu upplýsingar um stöðu neytenda hvað varðar fjármál heimila og að stjórnvöld í samvinnu við fjölmiðla og stofnanir efni til átaks eða opinberrar umræðu.

Ég vil því spyrja ráðuneytið og ráðherra: (Forseti hringir.) Hvað hefur ráðuneytið gert með tillögur nefndarinnar og að hvaða leyti. hefur ráðuneytið markað stefnu um hvernig vinna beri að bættu fjármálalæsi meðal neytenda?