140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

155. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn um fjármálalæsi, tel hana mjög brýna. Hins vegar er erfitt að ráðleggja fólki að leggja fyrir þegar vextir eru neikvæðir og skattlagning mikil og vaxandi og sér ekki fyrir endann á því. Það er líka slæmt að ráðleggja fólki að leggja fyrir þegar innlánstryggingarsjóðir eru ónýtir, ekki ríkisábyrgð á innstæðum o.s.frv.

Ég veit ekki hvað ég á að ráðleggja manni sem hringir í mig og segist vera með tíu milljónir í bankahólfi og eiga ekkert annað af því að hann tapaði öllu hinu. Ég hef ekki getað ráðlagt honum. Það er dálítið erfitt að fræða almenning um fjármálalæsi þegar stöðugt er verið að ráðast á sparnað á hinu háa Alþingi af hv. stjórnarliðum. Þetta er því dálítið mótsagnakennt. Ætti kannski að byrja á því að kenna hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðum fjármálalæsi?