140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

155. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir innlegg þeirra í þessa umræðu. Mér heyrist að við séum sammála um mikilvægi þess að bæta fjármálalæsi meðal almennings. Það snýr að neytendum en ekki síður að skólakerfinu og beini ég fyrirspurn sama efnis til hæstv. menntamálaráðherra síðar í dag.

Við erum sammála um að góðar ákvarðanatökur í fjármálum eru grundvallarfærni sem hægt er að læra. Það er áríðandi að fólk skilji fjármál sín til hlítar, taki upplýstar ákvarðanir, sníði sér stakk eftir vexti og öðlist þannig áhyggjuminna líf. Mér finnst því mikilvægt að á hinu stjórnmálalega sviði taki menn ákvörðun um að leggja meira upp úr fjármálalæsi almennings en gert hefur verið hingað til. Ég tek undir með ráðherra að með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á sambandi skuldara og lánveitenda má ætla að einkaaðilar muni taka þessi mál frekar upp á sína arma og gera meira úr þeim, en mér finnst mikilvægt að ráðuneytið fylgi því vel eftir og þá í gegnum þær stofnanir sem hafa með neytendamál að gera.

Mig langar að bera seinni punktinn upp við hæstv. ráðherra, þ.e. að skipulag neytendamála í Stjórnarráðinu er náttúrlega með eindæmum. Þessi mál eru í svo mörgum ráðuneytum og í raun er engin yfirsýn yfir hvað ber að gera og hvernig. Það veldur því að allt of lítið hefur verið lagt upp úr stöðu neytenda í íslensku samfélagi í sögulegu samhengi. Kannski bítur hver í annars skott hér, og ég veit ekki hvort kemur á undan í þessu, eggið eða hænan, ég veit ekki hvað veldur, en það er alveg ljóst að mínu mati að ráðherra sem situr í ríkisstjórn ætti að beita sér fyrir því að skipulagi neytendamála verði breytt, hvort sem er með sameiningu stofnana eða skýrari verkaskiptingu á þessu sviði.

Ég heyri að hæstv. ráðherra er áfram um að fjármálalæsi fái meira og betra vægi í framtíðinni og mér þætti vænt um að heyra hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um hvernig við getum bætt fjármálalæsi meðal neytenda hér á landi til frambúðar.