140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

fjármálalæsi.

155. mál
[16:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu.

Varðandi skipulag á sviði Stjórnarráðsins að þessu leyti þá held ég að ekki hafi skilað miklum árangri í sjálfu sér að flytja neytendamálin á sínum tíma frá viðskiptaráðuneytinu yfir til dómsmálaráðuneytisins þannig að þau eru núna í innanríkisráðuneytinu. Ég held að í ljósi þess að ábyrgð á djúpum og virkum mörkuðum er á höndum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins ættu neytendamálin vel heima þar. Þetta er auðvitað hlutur sem við höfum rætt í ríkisstjórninni og er eitt af þeim atriðum sem skiptir máli að taka á núna. Nýsamþykkt lög um Stjórnarráð Íslands skapa svigrúm til að flytja málaflokka á milli ráðuneyta með einfaldari hætti en áður var.

Það sem skiptir síðan máli í þessu samhengi er að horfa á heildarumgjörðina sem við munum standa frammi fyrir. Við höfum t.d. úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem er mikilvæg stoð fyrir réttargæslu almennings gagnvart fjármálafyrirtækjum. Hana þarf að styrkja og efla. Ég held líka að aukin áhersla á betra greiðslumat og mat á greiðsluþoli einstaklinga hjá fjármálafyrirtækjum sé óhjákvæmileg afleiðing af breyttu regluumhverfi og það þarf að styðja við það. Það getur líka verið leið til að styðja við fjármálalæsið, þ.e. að hvetja fólk með þeim hætti til að takast á hendur ábyrgð á eigin fjármálum og þekkingu á þeim. En ég held að mikilvægasta hvatann hafi alltaf vantað þangað til með löggjafarbreytingunum núna, sem er sá að fjármálafyrirtækin sjái fram á að fólk sem ekki hefur haft forsendur til að takast á hendur skuldbindingar, geti losnað undan þeim auðveldar en áður. Að mínu viti mun það verða núna lykilhvati þess (Forseti hringir.) að fjármálafyrirtækin nálgist þetta með öðrum hætti og þá verður meiri árangur af því starfi að efla fjármálalæsið.