140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

Náttúruminjasafn Íslands.

325. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það eru tvö ár síðan sú er hér stendur var með fyrirspurn af sama tagi, nánast nákvæmlega eins. Þó er einn liður sem bættist við eftir að hæstv. menntamálaráðherra hafði svarað fyrir tveimur árum og gaf mér tilefni til að spyrja á annan hátt núna.

Spurningarnar sem ég vil, hæstv. forseti, leggja fyrir hæstv. menntamálaráðherra eru eftirfarandi:

1. Eru gripir Náttúruminjasafns Íslands, eins þriggja höfuðsafna landsins, aðgengilegir og til sýnis eins og lög gera ráð fyrir?

2. Kemur til greina að finna safninu samastað í húsnæði sem fyrir er, svo sem í Þjóðmenningarhúsinu?

3. Hefur starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, sem kallaður var saman að nýju árið 2009 til að fara yfir mögulegan húsakost fyrir Náttúruminjasafnið, skilað af sér niðurstöðum? Ef svo er ekki, hvenær er þess að vænta?

Virðulegur forseti. Þannig er að við erum með þrjú höfuðsöfn á Íslandi, þ.e. Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Það er ágætlega búið að Þjóðminjasafninu, það er ágætlega búið að Listasafni Íslands en það er hörmulega búið að Náttúruminjasafni Íslands, það er bara ekkert búið að því. Þetta safn hefur verið á hrakhólum í yfir 100 ár, hvorki meira né minna. Í lögum Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem var stofnað í Reykjavík 16. júlí 1889, var minnst á Náttúrugripasafn Íslands. Safnið fór af stað á sínum tíma, fluttist á milli húsa og er núna í kössum þannig að það er hvergi.

Við gumum okkur af því að hér sé náttúran mjög sérstök og hún er það, við erum stolt af henni, nánast allir ferðamenn sem hingað koma, um 90% þeirra, koma hingað vegna náttúrunnar þannig að við höfum ýmislegt að sýna á þessu sviði og við viljum að börn okkar og ungmenni læri um náttúruna, en á sama tíma höfum við ekki möguleika á að sýna safngripi okkar.

Fyrir fjórum árum voru samþykkt lög um Náttúruminjasafn Íslands og þar er ákvæði til bráðabirgða sem segir að gripir, sem við gildistöku laga þessara tilheyri Náttúrufræðistofnun Íslands og hafa fyrst og fremst sýningargildi, skuli eftir gildistöku laga þessarar vera á forræði Náttúruminjasafns Íslands samkvæmt samkomulagi stofnananna samanber 3. gr.

Þrátt fyrir þetta virðist vera eitthvert óskaplegt tog í gangi enn þá, sem ég hélt að væri hægt að greiða úr, milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins. Það væri ágætt að heyra hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur að segja um það og bara um þetta mál yfirleitt. Hvað er þessi endurvakti starfshópur að gera sem hæstv. ráðherra vísaði í fyrir tveimur árum? Þá sagði ráðherrann að bráðlega væri að vænta frétta af þeim hópi. (Forseti hringir.) Hvað eigum við að bíða lengi eftir því að við getum sýnt (Forseti hringir.) gripi okkar? Staðan er til skammar fyrir okkur eins og hún er núna. Þá er enginn undanskilinn í þeim efnum, hvorki stjórn né stjórnarandstaða. Þessi mál eru búin að vera í ólestri í mörg ár.