140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

starfsskilyrði í æskulýðsstarfi.

326. mál
[17:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Ráðuneytið hefur allt frá samþykkt laganna um æskulýðsmál frá 2007 unnið að innleiðingu þeirra. Þau voru sérprentuð og send þannig til félaga, samtaka, stofnana og sveitarfélaga um land allt og fulltrúar ráðuneytisins hafa kynnt lögin á fundum með félögum, samtökum og hjá sveitarfélögum og ýmsum þeim aðilum sem vinna með börnum og unglingum.

Ráðuneytið fékk síðan dr. Ragnhildi Helgadóttur prófessor til að taka saman rit sem kallast Ábyrgð aðila sem standa fyrir félags- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga. Það kom út í september 2010. Hefur það verið sent til félaga og samtaka sem vinna með börnum og unglingum. Þá hefur verið fundað með félögum og samtökum í tengslum við útgáfu þessa rits og höfundurinn verið fenginn til að mæta á stærri fundi og hjá stjórnum félaga til að fara yfir efnið. Upplag ritsins er á þrotum en dr. Ragnhildur Helgadóttir hefur verið fengin til að yfirfara textann og við stefnum á að gefa út endurskoðað rit í janúar á næsta ári.

Snemma í haust sendi ráðuneytið félögum og samtökum sem við erum í samskiptum við erindi þar sem leitað var eftir upplýsingum um hvort viðbragðs- og aðgerðaáætlun væri til staðar innan starfseminnar ef upp koma mál sem tengjast slysum, veikindum, ofbeldi — líkamlegu, kynferðislegu, andlegu — eða vanrækslu af einhverju tagi og auk þess var óskað eftir upplýsingum um fræðslumál, ráðningarferli starfsmanna og sjálfboðaliða og um stjórn félaga eða samtaka. Fjöldi félaga og samtaka hefur svarað erindi ráðuneytisins og við erum nú að vinna úr innsendum svörum.

Við fyrstu sýn lítur út fyrir að hjá flestum samtökum séu þessi mál í nokkuð góðum farvegi. Hjá mörgum félögum eru upplýsingar aðgengilegar í rituðu formi og eins á heimasíðum félaganna. Æskulýðsvettvangurinn hefur komið á fót fagráði sem málum af þessum toga er vísað til og þar situr fagfólk sem hefur þekkingu á því hvernig bregðast skuli við þeim málum sem upp koma hjá aðildarfélögum. Innan þessa æskulýðsvettvangs standa til að mynda skátarnir, KFUM og KFUK, UMFÍ og Slysavarnafélagið Landsbjörg, svo dæmi séu tekin.

Við höfum líka lagt mikla áherslu á verkefnið Verndum þau sem er handbók um það hvernig bregðast eigi við grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum. Félag fagfólks í frítímaþjónustu og æskulýðsvettvangurinn hafa aðstoðað ráðuneytið við að koma bókinni á framfæri og þau hafa séð um að kynna efnið, skipuleggja verkefnið og staðið fyrir námskeiðum vítt og breitt um landið í samstarfi við bæði félög og sveitarfélög á viðkomandi stöðum. Höfundar bókarinnar eru þær Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, og Þorbjörg Sveinsdóttir, starfsmaður Barnahúss. Þær hafa leiðbeint á námskeiðunum og unnið mjög gott starf að þessum málum. Um það bil 2.600 manns hafa sótt námskeið um efni bókarinnar. Þau hafa mælst vel fyrir og við höfum lagt umtalsverða fjármuni í þetta verkefni. Upplag bókarinnar Verndum þau er á þrotum en hún er í rauninni ætluð öllum þeim sem starfa með börnum og unglingum, bæði launuðu starfsfólki og sjálfboðaliðum sem og stofnunum, félögum og samtökum svo og þeim sem starfa við félags- og tómstundastörf í grunn- og framhaldsskólum.

Ég tel það alveg ljóst að lögin hafa stuðlað að því að þeir sem starfa með börnum, hvort sem það eru launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar, eru betur meðvitaðir um ábyrgð sína og skyldur ekki síst út af því sem kemur fram í 10. gr. laganna og má ljóst vera að félög og samtök sem vinna með börnum og unglingum eru almennt meðvituð um mikilvægi þess að farið sé eftir lögum og reglum hvað viðvíkur starfi þeirra. Fræðslustarf og þjálfun bæði starfsfólks og sjálfboðaliða hefur verið efld mjög á undanförnum árum og hert hefur verið á reglum um ráðningar starfsfólks og hvernig í raun sjálfboðaliðar eru fengnir til starfa. Við sjáum það bæði hjá æskulýðsfélögum og sveitarfélögum sem eru þeir aðilar sem eiga að vinna helst með börnum og ungmennum.

Við munum að sjálfsögðu vinna áfram að innleiðingu æskulýðslaganna í samstarfi við æskulýðsfélög, samtök og sveitarfélög og fylgja þeim eins vel eftir og tök eru á.