140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

starfsskilyrði í æskulýðsstarfi.

326. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar. Ég sé að það sem hefur bæst við flóruna frá því á árum áður er meðal annars það að Ragnhildur Helgadóttir hefur samið rit um ábyrgð þeirra sem starfa hjá æskulýðsfélögum. Það er gott að þetta allt saman er kynnt mjög vel. Það sem skiptir mestu máli er fræðsla og uppbygging sem verður að eiga sér stað innan æskulýðsfélaga og samtaka varðandi það að þau séu meðvituð um hversu mikil ábyrgð fylgir því að vera með starf sem tengist börnum.

Ég heyrði og greindi það að hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri í nokkuð góðum farvegi. En þá er það eins og alltaf að ef eitthvert eitt tilvik sem kemur upp er það einu tilviki of mikið, sérstaklega þegar það beinist gegn börnum og ungmennum.

Ég vil spyrja ráðherra hvort starfsfólki sem starfar innan æskulýðsfélaganna hafi — eftir að lögin tóku gildi — verið vísað úr starfi á grundvelli þeirrar greinar sem um ræðir, þ.e. 10. gr.

Ég vil einnig spyrja hvort markviss vinna sé í samvinnu við íþróttahreyfinguna, því það er oft sem menn aðskilja æskulýðsfélögin við íþróttahreyfinguna. Íþróttahreyfingin starfar líka mikið í samvinnu við sveitarfélögin. Ég spyr hvort menn hafi farið í svipað starf tengt íþróttahreyfingunni.

Að öðru leyti vil ég þakka þetta. Ég sé að það er mikil eftirfylgni og vil sérstaklega taka undir það rit sem hæstv. ráðherra benti á, Verndum þau, sem var samið fyrir nokkrum árum. Ég held að það sé gríðarlega gott efni fyrir þá sem starfa að þessum málum, að þeim verði gefinn kostur á að kynna sér það rit sem best.