140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við hlaupum út af nefndarfundum til að komast í ræðustól. Það þarf kannski aðeins að endurskoða hversu lengi nefndarfundir standa.

Ég heyrði í morgun hæstv. fjármálaráðherra segja að allir ættu að vera góðir á aðventunni. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur greinilega ekki haft það ofarlega í huga þegar hann kláraði tillögur sínar til 3. umr. fjárlaga sem við ræðum í dag því að alvarlegur niðurskurður á heilbrigðisstofnunum landsins verður leystur með smásporslum til ráðherra velferðarmála sem getur þá leikið jólasvein og skammtað smápening hér og þar. En það tryggir ekki grunnþjónustu um land allt, þar er víða höggvið nærri beini og þyrfti að fara yfir það.

Mig langar að nefna annað mál sem tengist þessu. Í rannsóknarskýrslu Alþingis samþykktum við 63:0 að láta fara fram stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu. Ég spyr: Er ekki skynsamlegra að gera stjórnsýsluúttekt í þessum stofnunum áður en við ákveðum 500 millj. kr. aukafjárveitingu til Fjármálaeftirlitsins, til að kanna hvort þær standi undir þeim verkefnum sem þær eiga að leysa nú þremur árum eftir hrun? Það var tilgangurinn með þessum stofnunum. Hafa þær breytt vinnubrögðum sínum? Hafa þær fengið réttu verktólin, lög og reglugerðir? Allt það ættum við að gera áður en við leggjum hálfan milljarð til viðbótar til Fjármálaeftirlitsins sem við þurfum vissulega að passa að standi undir þeim væntingum sem við berum til slíks eftirlits.

Að lokum langar mig að nefna, í anda þess að við ætlum að vera góð á aðventunni, að innan tíðar verður söfnun vegna veðurhamfaranna í Færeyjum um daginn, hvort við í þinginu ættum ekki að leggja til einhverja fjármuni. Ríkisstjórnin ætti að leggja peninga í þá söfnun. Ég held að það væri skynsamlegt, það mundi vera vináttuvottur við okkar góðu vini í Færeyjum.