140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég geri að umræðuefni yfirlýsingar forseta ASÍ í gær um stöðuna á fjárlögunum. Þar kemur fram að forseti ASÍ metur það svo að ef fjárlagafrumvarpið verður að lögum muni það ógna kjarasamningum á Íslandi. Það eru mjög alvarleg tíðindi. Ég held að það sé ástæða fyrir okkur að hlusta eftir þeim orðum forseta ASÍ. Ég er ekki alltaf sammála því sem þaðan kemur en ég sé þó að þar talar fólk um kjaramál af ábyrgð og það hefur sýnt á undanförnum árum og áratugum að ástæða er til að hlusta á það.

Fram kom hjá forseta ASÍ að hann hefði fundað með forustumönnum stjórnarliðsins, formönnum fjárlaganefndar, varaformanni, fulltrúum úr efnahags- og viðskiptanefnd og formönnum þingflokka stjórnarliðsins. Á fundi fjárlaganefndar degi síðar, á laugardaginn, var í engu getið þessara funda sem þó hafa þetta alvarlega yfirbragð. En yfirlýsing forseta ASÍ eykur óvissuna í efnahagsmálum okkar Íslendinga. Forsendur þjóðhagsspár Hagstofunnar byggja m.a. á því að kjarasamningar haldi. Sú óvissa mun frekar draga úr líkum umfram það sem nú er á því að ráðist sé í alvörufjárfestingar af því að upp er komin mikil óvissa á vinnumarkaði. Það er einmitt vandinn.

Kjarasamningarnir sem gerðir voru síðasta vor byggðu á ákveðnum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar, m.a. hvað gert yrði til að tryggja að fjárfesting yrði næg til að standa undir þeim hagvaxtarforsendum sem gerðar voru til kjarasamninganna. Það er skref aftur á bak (Forseti hringir.) og eykur vanda ríkissjóðs, það eykur vanda heimilanna í landinu. Það er alvarlegt mál, frú forseti.