140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að vekja athygli á stöðunni varðandi fæðingar og fæðingardeildir. Það er að sjálfsögðu algerlega ólíðandi hvernig þessi þróun hefur verið og við hljótum að gera þá kröfu til þeirra sem stýra heilbrigðismálum að þetta verði endurskoðað nú þegar. Það eru hins vegar litlar líkur á að svo verði miðað við þau fjárlög sem á að samþykkja væntanlega á morgun vegna þess að í þeim er enn þá vegið að heilbrigðisþjónustunni þó að reynt sé að klóra aðeins í bakkann.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu samkvæmt samþykkt sem gerð var í þinginu. Ég held að virðulegur forseti þurfi að skoða vandlega af hverju sú úttekt er ekki farin af stað og hreyfa þá við því nú þegar.

Það sem mig langaði að segja hér er að hæstv. fjármálaráðherra hélt mjög sérstaka ræða í gær þegar hann var spurður um Evrópusambandið. Ég held að jafnhörð ræða með aðildarumsókninni og hæstv. fjármálaráðherra flutti í gær hafi ekki verið flutt í margar vikur eða mánuði. Við fengum nýjan helsta talsmann þess að ganga til liðs við Evrópusambandið. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi áðan að hæstv. velferðarráðherra væri eins og jólasveinninn að dreifa pökkum sem í væru aurar til að laga heilbrigðisþjónustuna, en þá er hæstv. fjármálaráðherra líklega eins og Gluggagægir. Hann vill kíkja í pakka. Hann vill sjá hvað er í þessu Evrópusambandi og hæstv. fjármálaráðherra ætlar sér að gera það, hann ætlar að leiða þjóðina í þessa vegferð, sama hvað það kostar.

Við erum farin að sjá að það er sami baráttuhugur í hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að ganga í Evrópusambandið og fyrir því að samþykkja Icesave-samningana. Við erum farin að sjá sömu vinnubrögð. Við hljótum að spyrja, frú forseti, hvort þingmenn Vinstri grænna séu sammála þeirri vegferð sem formaður þeirra er að leiða flokkinn í.