140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þreytist ekki á því að benda á óvönduð vinnubrögð þingsins. Athygli mín beinist sérstaklega að þeim frumvörpum sem koma úr Stjórnarráðinu þrátt fyrir að stofnuð hafi verið lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu þegar ég ásamt fleirum lagði fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis.

Þar sem ég var að koma núna af fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verður að upplýsa að brátt mun koma fyrir þingið breyting á lögum í kjölfar þess að ekki var hægt að fara fram með það ákvæði að upptökur á ríkisstjórnarfundum skyldu leyfðar. Þetta ákvæði var svo illa unnið að nú á að breyta gildistökuákvæðinu til 1. nóvember á næsta ári. Svona komum við í þingið með mál eftir mál sem gerð eru að lögum af meiri hluta þingsins, handónýt mál sem þarf svo að taka upp og laga. Það er iðulega hlutverk þingmanna að stunda lagabætur í stað þess að geta rætt hér efnislega um brýn mál eins og til dæmis að koma atvinnulífinu af stað og bjarga heimilum og fjölskyldum í landinu.

Þar sem ég er komin hingað upp verð ég líka að minnast á olnbogabarn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Olnbogabarnið er skýrsla stjórnlagaráðs. Það er svo mikill vandræðagangur með þessa skýrslu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að enginn veit hvað á að gera við hana. Stendur þar meiri hlutinn fremstur í flokki því málið er raunverulega allt í upplausn. Nú á að senda skýrsluna í álagspróf. Á lögfræðimáli heitir þetta einfaldlega að senda skýrsluna í lögfræðiyfirlestur. Nú er búið að taka ákvörðun um að búa til enn einn hópinn fyrir utan þingið til að fjalla um skýrsluna og lesa saman við stjórnarskrá Íslands. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég hlýt sem þingmaður að neita og hafna þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru (Forseti hringir.) varðandi skýrslu stjórnlagaráðs því það eru alþingismenn (Forseti hringir.) sem fara með stjórnskipunarvaldið, ekki aðilar úti í bæ.