140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í ljósi þess að forustumenn ASÍ funduðu með formanni og varaformanni fjárlaganefndar gerum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd þá kröfu að haldinn verði fundur í fjárlaganefnd og á þann fund verði boðaðir forustumenn ASÍ og fjármálaráðherra, það verði farið yfir þessi mál þannig að við þurfum ekki að ganga til umræðu um fjárlög með yfirlýsingar forustumanna ASÍ hangandi yfir okkur. Það er óþolandi, frú forseti.

Ég vil líka benda á að það er furðulegt að þessi atburðarás skuli hafa gengið fram eins og raun ber vitni. Auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að setjast niður með forustumönnum ASÍ og ræða þessi mál og fá botn í þau því það er mjög alvarlegt að fram komi yfirlýsingar eins og þær sem gefnar voru af hálfu forustu ASÍ um að kjarasamningar væru í uppnámi og ríkisstjórnin með gjörðum sínum væri að þvinga Alþýðusambandið til að segja upp kjarasamningum. Menn hljóta að átta sig á því, frú forseti, hvaða alvarlegu afleiðingar þetta hefur á vinnumarkaði og varðandi fjárfestingu í þessu landi. Það virðist vera þannig að hæstv. ríkisstjórn sé svo upptekin af eigin vandamálum að hún hafi ekki tíma til að fást við þau vandamál sem brenna á þjóðinni. Það er mjög alvarlegt, frú forseti.

Í það minnsta þess vegna hlýtur hv. formaður fjárlaganefndar að verða við beiðni okkar sjálfstæðismanna um að haldinn verði fundur í dag og 3. umr. um fjárlagafrumvarpið verði frestað þar til sá fundur hefur átt sér stað og við höfum fengið einhvers konar niðurstöðu í þetta mál. Það er ekki (Forseti hringir.) hægt að bjóða Alþingi Íslendinga upp á að farið sé til umræðna undir þessum formerkjum.