140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

störf þingsins.

[11:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stundum finnst mér hv. samþingmaður minn Vigdís Hauksdóttir ótrúleg. (VigH: Takk fyrir.) Mér fannst það í dag þegar við komum saman af fundi og hún sagði mér ekki einu sinni að hún ætlaði að taka þau efnismál sem við vorum þar með til umræðu. Hún veit eins vel og ég að hér er þröng á þingi og ekki alltaf hægt að komast að.

Þá vil ég fyrst nefna hljóðupptökur og þar sem hún skammar ríkisstjórnina fyrir illa fram sett lagafrumvörp og þar fram eftir götunum. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég af því að við sátum saman í allsherjarnefnd í fyrra að sú tillaga kom ekki frá ríkisstjórninni, (Gripið fram í.) sú tillaga kom frá allsherjarnefnd. Hún kom þangað bæði frá stjórnarliðum og stjórnarandstöðuþingmönnum, svo það sé alveg klárt, það var þingið sem stóð að þessu. Hv. þingmaður á að venja sig á að fara rétt með. (VigH: Ég geri það.)

Varðandi annað stórt frumvarp sem við erum með til umræðu í nefndinni, þ.e. tillögur stjórnlagaráðs. Það eru níu þingmenn í nefndinni. Átta þingmenn eru mjög sammála um þá málsmeðferð sem þar er, átta þingmenn eru sammála um að ræða málin efnislega eins vel og mögulegt er og við vitum að á næsta ári verður gert frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga vegna þess að eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur svo oft sagt okkur er það þingið sem samþykkir, síðan er kosið. Síðan er það aftur þingið sem samþykkir frumvarpið til að við getum breytt stjórnarskrá, (Forseti hringir.) það hefur Vigdís Hauksdóttir sagt mér. Þess vegna verður frumvarpið lagt fram á næsta þingi.