140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fundarstjórn.

[11:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki af hverju vinnubrögðin þurfa að vera með þeim hætti sem lýst hefur verið í dag. Það er engin ástæða til þess nema sú að breyta þarf í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar. Ég held við ættum frekar að draga andann og fara vel yfir þetta.

Ég gagnrýndi mjög harkalega að ekki skyldi koma álit frá efnahags- og viðskiptanefnd um tekjuhluta fjárlaganna. Ég verð hins vegar að biðja þingheim afsökunar á því vegna þess að í 13. gr. segir að það sé fjárlaganefnd sem eigi að gefa efnahags- og viðskiptanefnd álit sitt á tekjuhlið fjárlaganna. Væntanlega þýðir það það að efnahags- og viðskiptanefnd fær það álit og skilar svo áliti sínu aftur til fjárlaganefndar. Með öðrum orðum, þær breytingar sem gerðar voru á þingsköpum Alþingis af hálfu Samfylkingar (Forseti hringir.) og Vinstri grænna í vor eru svo víðáttuvitlausar að það er ekki hægt að fara eftir þeim.