140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fundarstjórn.

[11:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti.. Menn fara misjafnlega með staðreyndir og af því tilefni sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vitnaði til fyrri tíðar er það örugglega rétt að fjárlög hafa verið afgreidd áður en skattafrumvörp hafa verið afgreidd af þinginu. En ekki í eitt einasta skipti voru fjárlög afgreidd án þess að fyrir lægi umsögn efnahags- og skattanefndar. Það vill svo til í þessu máli að sú umsögn um tekjugrein fjárlaga liggur ekki fyrir.

Það er rétt sem fram hefur komið og um það hefur ríkt töluvert mikil samstaða í fjárlaganefnd að gera þarf breytingar á þingsköpum sem taka af þau vafamál sem uppi eru í þessu efni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa í aðdraganda þeirrar umræðu sem á sér stað í dag ítrekað bent á nauðsyn þess að fyrir liggi mat efnahags- og viðskiptanefndar á tekjugrein fjárlaga. Því miður liggur (Forseti hringir.) málið þannig að sú umsögn liggur ekki fyrir.