140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hvet forseta, í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram og vegna ábendinga um að hugsanlega sé ekki farið að þingsköpum, að hefja ekki þá umræðu á eftir sem auglýst hefur verið án þess að búið sé að fara í gegnum það hvort ferlið sé allt rétt og samkvæmt bókinni og samkvæmt lögunum sem við eigum að vinna eftir. Við getum að sjálfsögðu ekki tekið þá áhættu að fjárlög séu samþykkt eða fari í gegnum þingið ef vinnubrögðin stangast á við þingsköp Alþingis. Ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvernig það var í fyrndinni, það má örugglega bæta margt frá þeim tíma, en svona er staðan í dag og við þurfum að bregðast við henni. Ég hvet hæstv. forseta til að gera hlé á eftir þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að þau vinnubrögð sem viðhöfð eru séu í lagi og hvort eitthvað vanti upp á til að við getum gengið frá fjárlögunum.

En ég tek undir þá gagnrýni að það er undarlegt að samþykkja fjárlög án þess að tekjuhliðin liggi fyrir.