140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni langar mig til að deila ákveðnu samtali sem ég átti á föstudagskvöldið, þá hitti ég fyrrverandi þingmenn. Að sjálfsögðu kom til umræðu yfirbragð þingsins, hvernig það væri núna árið 2011. (Gripið fram í.)

Þessir fyrrverandi þingmenn töldu að það væri fyrst og fremst framgöngu þess forseta sem sæti í forsetastól hverju sinni, og þá aðallega forseta Alþingis, um að kenna að það liti oft út eins og hér væri ringulreið. (Gripið fram í.) Á árum áður störfuðu forsetar með þeim hætti að þegar eitthvert álitamál kom upp á þingi úrskurðaði forseti um leið í því máli. Hvort sem fjallað var um að gera ætti hlé á þingfundi eða eitthvað annað þá reis forseti úr sæti og úrskurðaði í málinu og síðan hélt þingfundur áfram. Við sjáum öll (Forseti hringir.) að hér er aldrei úrskurðað í málum og stjórnarandstaðan klárar tíma sinn í máli eftir máli (Forseti hringir.) og það er aldrei nein (Forseti hringir.) endanleg niðurstaða.