140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þær tillögur sem komið hafa fram frá hv. þm. Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur þar sem þau óska þess að umræðu um fjárlög verði frestað þar til tillögur þeirra hafa komið fram. Þær eru, að mér skilst, ekki allar komnar fram þannig að væntanlega er þá ekki hægt að veita afbrigði um þær allar í einu á eftir.

Það er áhyggjuefni, ekki síst vegna þeirra orða áðan um að þingmenn eigi að sýna ábyrgð, ef vafi leikur á því að við förum eftir þingsköpum og eftir þeim lögum sem við höfum samþykkt á þingi, þá verður frú forseti að gera hlé á eftir þannig að hægt sé að útkljá það mál.

Ég tek undir tillögu hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur, það er ástæðulaust að láta daginn fara til spillis ef við gerum hlé eða frestum umræðunni. Það er þá hægt að mæla fyrir þessum 1. umræðu-málum sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir nefndi áðan. Ég held að það sé prýðistillaga.