140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[11:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Einn hv. þingmaður kaus að ræða traust til Alþingis og fundarstjórn hæstv. forseta sérstaklega. Vísað var í gamla þingmenn um að traustið væri ef til vill svo lítið sem það er vegna starfa hæstv. forseta Alþingis, vegna þess að hæstv. forseti Alþingis úrskurðaði ekki alltaf strax og mál kæmu upp. Ég vil af því tilefni segja: Heyr á endemi! Þetta er algerlega fráleit skýring. Þingmenn eiga að líta sér nær varðandi traust á Alþingi.

Hér falla ljót orð í garð hv. þingmanna, milli þeirra og til annarra í samfélaginu. Hérna eru frammíköll miklu meiri en nokkurn tíma áður. Þingmenn fara ekki einu sinni úr pontu þegar tíminn er búinn og eru með stæla við hæstv. forseta Alþingis. (Forseti hringir.) Nú skulu hv. þingmenn hætta að tala svona. Þessu verður að linna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég vil fara fram á sérstaka umræðu um þau orð sem fallið hafa hér og lýsi því yfir (Forseti hringir.) að ég ber fullt traust til hæstv. forseta Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)