140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[12:00]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég hef ætíð virt fundarstjórn hæstv. forseta í hvívetna, tímamörk og annað, og ber traust til frú forseta. Ég vil hins vegar segja að það er rangt hjá frú forseta að tillögur okkar séu komnar fram. Það eru komnar fram þrjár afmarkaðar tillögur en megintillögur okkar um breytingar eru ekki fram komnar. Það er alsiða, segir frú forseti, en það er vondur siður. Það hefur verið harkalega gagnrýnt frá því að ég settist á þing vorið 2007 og það er ekki hægt að segja að þetta sé alsiða því að maður bætir ekki böl með því að benda á annað verra, það er vont mál.

Hér hefur líka verið brotin sú hefð að 3. umr. um fjárlagafrumvarp hefur ævinlega farið fram, að því er ég best veit, síðustu viku fyrir jólahlé. Hvernig stendur á þessari breytingu sem nú er orðin á þeirri hefð?

Ég ítreka þá kröfu mína, með fullri virðingu fyrir frú forseta, að umræðunni verði frestað þar til allar breytingartillögur hafa komið fram. (Forseti hringir.) Það er faglegt, það er vandað og það eru vel unnin forsetastörf.