140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[12:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að taka undir ósk hv. þingmanna Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur um að umræðan um fjárlögin verði ekki hafin fyrr en allar breytingartillögur þeirra eru komnar fram. Það eru margar fleiri á leiðinni og mér finnst það mjög ósanngjarnt gagnvart þeim þingmönnum að hefja fjárlagaumræðuna áður en þingheimur hefur fengið tíma til að kynna sér allar breytingartillögur við fjárlögin. Það er slæm framkoma og einkennist af virðingarleysi við hv. þingmenn.

Nú er liðið að hádegi og ég legg til að hæstv. forseti þingsins geri hlé á þingfundi, athugi hvaða breytingartillögur eru á leiðinni og bíði með að hefja umræðu um fjárlögin þangað til þær eru allar komnar í þingið. Það er þá hægt að gera hádegishlé í einhvern tíma og hefja svo umræðuna eftir það. Það væri sanngjörn málsmeðferð á þessum málum í stað þess að keyra í gegn umræður án þess að (Forseti hringir.) þingmálin sem ræða á liggi fyrir.