140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því að 2. umr. fór fram þann 29. nóvember síðastliðinn. Breytingartillögur þær sem til umfjöllunar eru nú við 3. umr. nema samtals 522,3 millj. kr. til hækkunar útgjalda í A-hluta. Tekjur hækka um rúmlega 1.500 millj. kr. við 3. umr. en þar vegur mest 900 millj. kr. hækkun á áætlunum um úttekt séreignarsparnaðar á árinu 2012. Halli ríkissjóðs í A-hluta verður 20.749,8 millj. kr. Heildartekjur eru áætlaðar 522.939,3 millj. kr. og heildargjöld 543.689,1 millj. kr. Hér á eftir fylgja skýringar á helstu breytingartillögum meiri hlutans.

Lagt er til að framlög til æðstu stjórnar ríkisins hækki um 20 millj. kr. vegna viðbótarframlags til Ríkisendurskoðunar og útgjöld til forsætisráðuneytisins um 9,5 millj. kr. vegna þjóðgarðsins á Þingvöllum. Hér er um tvíþætta hækkun að ræða. Annars vegar er framlag til þjóðgarðsins hækkað um 5,5 millj. kr. en hins vegar renna 4 millj. kr. af auknu gistináttagjaldi til þjóðgarðsins. Gistináttagjaldið hækkar vegna endurútreiknings frá áætlun um 35 millj. kr. og þar með, eins og áður sagði, hækka jafnframt framlög til Þingvallaþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar vegna þjóðgarða og friðlýstra svæða um 10 millj. kr. og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um 21 millj. kr.

Lagt er til að framlög til mennta- og menningarmálaráðuneytis hækki um 353 millj. kr. Helstu hækkanir skýrast af 30 millj. kr. framlagi til Háskólans á Akureyri vegna launahækkana, 20 millj. kr. framlagi til Listaháskóla Íslands vegna náms á meistarastigi og tímabundinni hækkun framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 270 millj. kr. Hækkunin kemur til vegna endurmats á útgjöldum í tengslum við átak á sviði vinnumarkaðsaðgerða og eflingu menntunar atvinnuleitenda. Stefnt var að því að skapa námstækifæri fyrir allt að eitt þúsund atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár á eftir. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að 250 manns færu af atvinnuleysisbótum og í lánshæft nám. Gert var ráð fyrir að útlán sjóðsins mundu aukast tímabundið um 300 millj. kr. vegna þessa og því var fjárheimild sjóðsins aukin um 150 millj. kr. miðað við að niðurgreiðsla ríkisins til lánveitinga sjóðsins þurfi að vera um 47%. Miðað við upplýsingar Vinnumálastofnunar í nóvember um stöðu átaksins hafa um 990 einstaklingar sótt um þátttöku en þar af er gert ráð fyrir að um 700 einstaklingar fari í lánshæft nám en 300 einstaklingar fái framfærslustyrk frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Áætlað heildarframlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna þessa átaks er því samtals 420 millj. kr.

Lagt er til að framlög til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hækki um 102,8 millj. kr. Við 2. umr. var samþykkt að færa þessa fjárhæð af liðum 04-190-1.90 og 1.98 og er hún nú færð á nýtt viðfang, 04-190-1.94, Ýmis samningsbundin verkefni.

Lagt er til að framlög til innanríkisráðuneytis lækki um 20 millj. kr. Framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um málefni fatlaðra lækkar í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um greiðslur vegna veikrar stöðu útsvarsstofns. Nú hefur áætlun um útsvarsstofn hækkað umtalsvert og þar með lækkar beint framlag ríkisins samkvæmt samningi.

Lagt er til að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög, hækki um 60 millj. kr. vegna hækkunar tekjuskerðingarmarka húsaleigubóta úr 2 millj. kr. í 2.250.000 kr. á ári.

Lagt er til tímabundið framlag upp á 190 millj. kr. til hönnunar á nýju gæsluvarðhalds-, móttöku- og kvennafangelsi. Heildarkostnaður við hönnunina er áætlaður 220 millj. kr. Reiknað er með að þar af verði 30 millj. kr. varið til samkeppni arkitekta um hönnun og er miðað við að sá kostnaður verði fjármagnaður með yfirfærðum afgangsheimildum liðarins. Gert er ráð fyrir að í framhaldinu muni hönnun byggingarinnar kosta 170 millj. kr. og að skipting þess kostnaðar verði til helminga milli arkitekta og verkfræðinga. Einnig er reiknað með 20 millj. kr. kostnaði við umsjón Framkvæmdasýslu ríkisins með verkefninu.

Umfjöllun um fangelsismál í fjárlaganefnd vakti þó nokkra athygli og er því rétt að gera örstutta grein fyrir helstu athugasemdum í nefndinni. Má segja að gagnrýnin hafi verið þrenns konar.

Í fyrsta lagi ber að nefna að ekki liggur fyrir með hvaða hætti fjármagna á fangelsisuppbygginguna, þ.e. hvort fangelsið verði byggt í svokallaðri einkaframkvæmd eða greitt úr ríkissjóði. Fjárlaganefnd ræddi hvort veita ætti heimild fyrir svo hárri fjárhæð þegar ekki lægi fyrir hver framtíðarskuldbinding ríkissjóðs yrði.

Þá komu fram þau sjónarmið að ekki væri ráðlegt að byggja upp tvö öryggisfangelsi á Íslandi.

Þriðja athugasemdin laut að því að Alþingi væri með ákvörðuninni um fjárveitingu til hönnunar nýs fangelsis að taka stefnumarkandi ákvörðun í fangelsismálum án þess að um málið hefði farið fram ítarleg umræða á Alþingi.

Fram kom í meðförum nefndarinnar að mjög brýnt væri að hefja hönnun fangelsisins sem fyrst enda hefði ný fangelsisbygging staðið til í nokkra áratugi. Nú stefnir í óefni í fangelsismálum og eins er það svo að karlar sem eru að afplána dóma sitja við óviðunandi aðstæður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg sem hefur átt erfitt með að fá starfsleyfi vegna óviðunandi aðbúnaðar og eins er kvennafangelsið í Kópavogi fullkomlega óviðunandi úrræði. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að heimildin verði veitt en innanríkisráðherra mun leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um heildarstefnumörkun um fullnustu refsinga og fangelsisvistun fyrir 1. febrúar 2011.

Þá er lagt til tímabundið 55 millj. kr. framlag til öryggismála í fangelsum. Af framlaginu eru 5 millj. kr. ætlaðar til Hegningarhússins og fangelsisins á Kópavogsbraut 17 vegna tímabundinna ráðstafana en 50 millj. kr. til fangelsisins á Litla-Hrauni sem er fyrsti liðurinn í áætlun um endurbætur og uppbyggingu öryggisfangelsins þar í samræmi við skýrslu nefndar um framtíðarrekstur fangelsisins frá október 2007.

Lagt er til að framlög til sóknargjalda hækki um 90 millj. kr. og skiptist þannig að sóknargjöld til þjóðkirkjunnar hækka um 61,2 millj. kr., sóknargjöld til annarra trúfélaga um 8,3 millj. kr., til Jöfnunarsjóðs sókna um 11,5 millj. kr. og til Kirkjumálasjóðs um 9 millj. kr. Er þessi skipting á 90 millj. kr. hækkuninni gerð í samræmi við gildandi lög.

Lagt er til að veitt verði 25 millj. kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar við vitundarvakningarátak Evrópuráðsins um ofbeldi gegn börnum. Verkefnið byggist á samvinnu þriggja ráðuneyta og kostnaðaráætlun miðast við að veittar verði 25 millj. kr. á fyrsta ári en 16 millj. kr. tvö árin á eftir. Meðal þess sem áætlað er að styrkja á fyrsta árinu er fræðsluátak í grunnskólum landsins, bæði fyrir nemendur og kennara. Þá yrði haldin ráðstefna með aðkomu ákæruvalds, dómstóla og lögregluyfirvalda auk kynningar á sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi og misneytingu á börnum. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar verði millifærðar yfir á viðeigandi gjaldaliði fjárlaga í samræmi við framvindu verkefnisins.

Lagt er til að framlag til Neyðarlínunnar hækki tímabundið til eins árs um 20 millj. kr. til að ljúka vinnu við útkallskerfi sem ætlað er til að vara ferðamenn og aðra sem eru með GSM-síma á hættuslóð við tafarlausri hættu. Verkefnið er unnið í samvinnu við símafélögin og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og er komið áleiðis en fjármuni vantar til að ljúka því með þeim hætti að kerfið fullnægi þeim kröfum sem til þess er gert, þ.e. að boð verði send innan fimm mínútna eftir að tilkynning um hættu hefur borist Neyðarlínunni. Kostnaðurinn verður til annars vegar hjá símafélögum og hins vegar er kostnaður vegna hugbúnaðar til að sækja og senda í gegnum kerfi símafélaganna en Neyðarlínan mun bera þann kostnað sem snýr að henni, lögreglu og samhæfingarstöðinni.

Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til Vegagerðarinnar til að styðja við innanlandsflug, einkum til að mæta brýnustu þörf þar sem ella stefndi í að flugi yrði hætt.

Lagt er til að framlög til velferðarráðuneytis lækki um 621 millj. kr. Lækkunin stafar fyrst og fremst af því að lagt er til að liðurinn Atvinnuleysistryggingasjóður, atvinnuleysisbætur, lækki um 894 millj. kr. vegna endurmats á áætlun í tengslum við átak á sviði vinnumarkaðsaðgerða og eflingu menntunar atvinnuleitenda. Stefnt var að því að skapa námstækifæri fyrir allt að eitt þúsund atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár á eftir. Gert var ráð fyrir því að þeir einstaklingar sem kæmust ekki í lánshæft nám fengju framfærslustyrk frá sjóðnum í stað atvinnuleysisbóta. Miðað við upplýsingar Vinnumálastofnunar í nóvember um stöðu átaksins hafa um 990 einstaklingar sótt um þátttöku og eins og áður sagði munu um 700 einstaklingar fara í lánshæft nám hjá LÍN en um 300 einstaklingar fá framfærslustyrki frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Því er áætlað að útgjöld sjóðsins muni lækka um 894 millj. kr. til viðbótar við fyrri áætlun og verður lækkunin því samtals um 1,3 milljarðar. Á móti þessari lækkun er gert ráð fyrir 270 millj. kr. aukinni fjárveitingu til LÍN til að mæta auknum lánveitingum til námsmanna í átakinu en auk þess er gert ráð fyrir að 400 millj. kr. fjárheimildir verði millifærðar af lið fyrir bætur yfir á lið fyrir styrki.

Lagt er til að rekstrarframlag til Sjúkrahússins á Akureyri hækki um 500 millj. kr. og rekstrarframlag til Landspítala um 50 millj. kr. (Gripið fram í: … að bóka þetta.) (Gripið fram í: Þú sagðir 500.)

Frú forseti. Ég heyri að þingmenn eru að hlusta vel á ræðumann og ég ætla því að hefja lesturinn aftur svo þetta verði rétt í bókum Alþingis og fagna ég því hversu góð athygli þingmanna er og þakka.

Lagt er til að rekstrarframlag til Sjúkrahússins á Akureyri hækki um 5 millj. kr. og rekstrarframlag til Landspítalans um 50 millj. kr. Þá er lagt til að liðurinn Heilbrigðisstofnanir, almennur rekstur, hækki um 77 millj. kr. tímabundið til að auðvelda heilbrigðisstofnunum að ná aðhaldskröfu í rekstri og tryggja mikilvæga þjónustu. Þá er lagt til að framlög til samninga um sjúkraflutninga hækki um 150 millj. kr.

Ef þessar tillögur meiri hlutans verða samþykktar hafa framlög til heilbrigðismála hækkað um rúmlega 940 millj. kr. frá frumvarpinu.

Lagt er til að framlög til iðnaðarráðuneytis hækki um 71 millj. kr. Fyrir utan útgjöld vegna endurreiknings á gistináttagjaldi er lagt til að veittar verði 50 millj. kr. til að mæta kostnaði vegna verkefna við aukið raforkueftirlit á vegum Orkustofnunar í kjölfar nýlegrar úttektar. Í frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, er gert ráð fyrir að gjaldtaka aukist um sömu fjárhæð og nemur útgjaldaauka Orkustofnunar.

Lagt er til að framlög til efnahags- og viðskiptaráðuneytis hækki um 548 millj. kr. vegna einnar stofnunar, Fjármálaeftirlitsins. Á móti þeirri hækkun kemur samsvarandi hækkun á eftirlitsgjaldi fjármálastofnana sem samkvæmt lögum nr. 99/1999 rennur beint til reksturs Fjármálaeftirlitsins og er innheimt af því. Hækkun fjárheimildarinnar hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Á hitt er að líta að kostnaður við rekstur eftirlitsins hefur aukist umtalsvert síðan 2007. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var bent á veilur í opinberu eftirliti með starfsemi fjármálastofnana sem brýnt var að bregðast við. Þær veilur voru að hluta til fjársvelti en sneru einnig að viðhorfinu til hlutverks eftirlitsins. Efnahags- og viðskiptaráðherra ber samkvæmt fyrrgreindum lögum að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um fjárhæð eftirlitsgjalds til Fjármálaeftirlitsins og skal það byggt á skýrslu eftirlitsins ásamt áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila. Meiri hluti fjárlaganefndar undirstrikar að Alþingi tekur síðan ákvörðun um fjárheimildir til Fjármálaeftirlitsins enda fer það bæði með löggjafarvald og fjárstjórnarvald og það vald verður ekki útvistað til einstakra stofnana eða embætta þó sjálfstæð séu í störfum sínum. Meiri hlutinn telur ástæðu til að beina því til efnahags- og viðskiptaráðherra að fram fari óháð mat á starfsemi Fjármálaeftirlitsins í ljósi þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á fjárheimildum þess undanfarin ár og í kjölfarið verði lög um starfsemina endurskoðuð gefist tilefni til þess.

Í þessu samhengi, frú forseti, tel ég rétt að fara örlítið nánar ofan í þetta mál og benda á að nýlega hefur farið fram úttekt fransks sérfræðings á eftirlitshluta Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kemur að stórefla þurfi ýmsa ferla í eftirlitinu hjá stofnuninni. Þá hefur eftirlitið sjálft bent á það að Basel-reglur um eftirlit séu að verða umfangsmeiri og því þarf Fjármálaeftirlitið að bregðast við því með fjölgun starfsfólks og kaupa á búnaði til að geta orðið við þeim kröfum. Þá ber einnig að geta þess að í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda við AGS frá því í maí kemur fram að íslensks stjórnvöld munu tryggja nægar fjárheimildir til þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt skyldum sínum.

Þetta fór fjárlaganefnd yfir og er sammála því að eftirlitið fái að sinna skyldum sínum en einnig ber að hafa í huga að mikill niðurskurður hefur verið hjá opinberum stofnunum á síðastliðnum árum vegna skuldaaukningar ríkissjóðs í kjölfar hrunsins og tekjufalls og það eru margar viðkvæmar stofnanir sem veita mjög mikilvæga þjónustu. Það er verið að skera niður hjá þeim og því er ákaflega brýnt að stofnanir sem sækja ekki fjármuni í skatttekjur heldur sérstaka tekjustofna, eins og í þessu tilfelli þeirra sem eru undir eftirliti, en það er ákaflega brýnt að þær sýni sama aga í rekstri og aðrar stofnanir ríkisins þó að tekna þeirra sé aflað með öðrum hætti. Meiri hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að Fjármálaeftirlitið hafi þau tæki og miðla sem það þarf til að geta sinnt eftirliti sínu, sem sagan hefur sýnt okkur að ekki veitir af, en um leið tel ég að eftirlitið verði engu að síður að vera undir sama fjárstjórnaraga og aðrar ríkisstofnanir.

Lagt er til að framlög til umhverfisráðuneytis hækki um 50 millj. kr. Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til undirbúnings, þarfagreiningar og hönnunar á húsi fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri. Í kjölfar þeirra áfalla sem byggðin í Skaftárhreppi varð fyrir í Grímsvatnagosinu síðastliðið vor var unnin ítarleg úttekt á innviðum samfélagsins þar og bent á nokkur atriði sem gætu orðið til að styrkja samfélagið sem glímir við alvarlega fólksfækkun. Ein þeirra tillagna sem átti sterkan hljómgrunn heima fyrir var frekari uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs og hugmynd um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri sem m.a. hýsti gestastofu þjóðgarðsins á svæðinu. Fræðslu- og þekkingarstarfsemi sem tengist gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs mun styrkja innviði og stoðir samfélagsins, efla listir og menningu og styrkja ferðaþjónustu svæðisins, ekki síst varðandi möguleika til heilsársstarfsemi. Slík starfsemi mun einnig styrkja landbúnaðinn sem er undirstöðuatvinnugrein svæðisins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Undir þetta álit rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Árni Þór Sigurðsson.