140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar framsögu hennar. Hún fór ítarlega yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Þær eru af ýmsum toga og misskemmtilegar eins og gengur en ég held engu að síður að óhjákvæmilegt sé að spyrja hv. þingmann spurningar sem lýtur að einu sérstöku atriði á sviði heilbrigðismála. Spurning mín er borin upp til að fá skýra afstöðu meiri hluta fjárlaganefndar til þeirrar tillögu sem hér um ræðir en það er tillaga um 77 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til heilbrigðisstofnana í almennan rekstur. Ætlunin er að ráðuneyti velferðarmála hafi heimildir til að skipta þessu fé.

Nú liggja fyrir í þeim gögnum sem fjárlaganefndin vann ákveðnar tillögur um skiptingu á bróðurparti þessa fjár sem lýtur að greiðslu húsaleigu hjá að minnsta kosti þremur heilbrigðisstofnunum. Þetta hefur verið dregið til baka í orðum og í vinnunni og kemur ekki fram í þeim skýringum sem hér eru gefnar. Ég tel þó ástæðu til að spyrja að þessu vegna þess að ég hef heyrt síðan, í framhaldi af afgreiðslu nefndarinnar, að á þeim svæðum sem þarna eiga hlut að máli hafi menn gert sér vonir um að búið væri að afturkalla þær hagræðingarkröfur sem gerðar voru á viðkomandi stofnanir með vísan til þess að þær mundu fá greiðslur úr þessum potti, meðal annars til að standa straum af húsaleigukostnaði. Við verðum að mínu mati að hafa mjög afdráttarlausan, skýran og sameiginlegan skilning á innihaldi (Forseti hringir.) þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og ég kalla eftir því frá hv. formanni.