140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að koma aðeins inn í þá umræðu sem átti sér stað á milli tveggja hv. þingmanna um hvernig er farið með stofnanir sem annaðhvort keyra fram úr eða eiga inni ónýttar heimildir. Allir eru sammála um hvernig eigi að fara með það, ég hef að minnsta kosti ekki heyrt annað þann stutta tíma sem ég hef setið á þingi, það á að gæta jafnræðis. En óréttlætið í því hvernig farið er með stofnanirnar heldur samt alltaf áfram. Það heldur bara áfram. Það kom fram í fjáraukalögunum og fjárlögunum núna og þetta heldur bara áfram þó að allir séu sammála um að breyta því. Þetta er mjög ósanngjarnt og sendir þau skilaboð til forstöðumanna stofnana að ábyrgð þeirra gagnvart fjárlögum sé ekki svo mikil þegar öllu er á botninn hvolft vegna þess að viðtekna venjan er sú eins og við þekkjum, að framkvæmdarvaldið — þingið tekur ekki upplýsta ákvörðun um það hvernig þetta er gert — er með svokallaðan frystibrúsa og frystir ákveðinn hala með tilteknum skilyrðum sem okkur er ekki kunnugt um hér.

Í ljósi þeirrar dapurlegu umræðu sem átti sér stað undir liðnum störf þingsins áður en við byrjuðum þessa umræðu, vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um það að breyta þurfi þingsköpum. Ég er margbúinn að ræða þetta í hv. fjárlaganefnd og mín skoðun er sú, og ég tók það fram í ræðu minni í 2. umr., að við þurfum að breyta þingsköpunum. Hv. fjárlaganefnd á að flytja breytingartillögu um að færa þetta í fyrra horf, þ.e. að efnahags- og viðskiptanefnd gefi fjárlaganefnd umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Ég tel mjög mikilvægt að breyta þessu. Ef menn ætla að hafa fyrirkomulagið eins og það er núna við vinnslu frumvarpsins hefur í raun og veru ekki verið farið yfir tekjuáætlun þess með viðunandi hætti. Það er bara staðreynd. Þingið hefur ekki lagt sjálfstætt mat á hana. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Tekur hún undir þá skoðun mína að mikilvægt sé að þingsköpunum sé breytt þannig að þetta verði fært í fyrra horf og efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) gefi hv. fjárlaganefnd umsögn um tekjuhlið frumvarpsins?