140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get sagt það strax við hv. þingmann að ég tek undir með honum, ég tel að breyta þurfi þingsköpum til fyrra horfs varðandi þennan þátt í nefndarstarfinu. Nú er að störfum þingskapanefnd sem á að fara yfir þau lög sem við samþykktum í vor og fara yfir þá agnúa sem upp hafa komið. Varðandi þann þátt þingskapalaganna sem segir að það sé fjárlaganefndar að gefa umsögn um tekjuhlutann til efnahags- og viðskiptanefndar hefur þar orðið alvarlegur viðsnúningur. Í raun og veru er það efnahags- og viðskiptanefnd sem á að gefa fjárlaganefnd umsögn um tekjuhlutann en ekki öfugt.

Við höfum rætt þetta þó nokkuð í nefndinni en mikil fyrirstaða hefur verið varðandi breytingu á þingskapalögunum, ekki af hálfu nefndarinnar heldur þeirra sem eru í forustu í þinginu af því að verið er að endurskoða lögin. Ég held að full ástæða sé til að íhuga hvort fjárlaganefnd vilji sameinast um þá tillögu að breyta þessu ákvæði.