140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Auk mín standa að því áliti hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Illugi Gunnarsson. Þegar maður lítur yfir fjárlagagerðina fyrir árið 2012 er auðvitað margt sem kemur upp í hugann. Þetta er flókið og viðamikið verkefni og tekur á ótal þáttum sem gerð er krafa um að við vöndum til verka með. Það er einfaldlega þannig að við erum að gera tillögur um ráðstöfun á fjármunum úr sameiginlegum sjóði landsmanna sem allir leggja í og þeirri ráðstöfun er ætlað að tryggja að okkar ágæta þjóðfélag geti gengið svona þokkalega skammlaust út næsta ár, í það minnsta. Við erum síðan að reyna að reka þetta og gerum það í tengslum við lengri tíma áætlanir en mikill tröppugangur hefur verið í því hvernig okkur hefur tekist það.

Fjárlagafrumvarp sem lagt er fram á fyrsta degi þings, að hausti, er unnið af ríkisstjórn yfir sumarið og haustið og ber inni þær áherslur sem ríkisstjórnarmeirihlutinn vill standa að í fjárlögum ríkisins á komandi ári. Þegar rýnt er í fjárlögin bera menn eðlilega saman orð og efndir við þær væntingar sem kjósendum eru gefnar við hverjar kosningar, þar sem kjósendur kjósa til þings fulltrúa sína sem starfa eiga þar út kjörtímabilið, hvort heldur það er fjögur ár eins og er að öllu jöfnu eða skemmra eins og sumir bera vonir og væntingar til. Þá er eðlilegt að bera saman þau fyrirheit sem stjórnmálamenn gefa í aðdraganda kosninga og leita eftir umboði kjósenda til að stýra þjóðfélaginu og þegar maður lítur til þess tekur maður að sjálfsögðu upp þá samstarfsyfirlýsingu sem ríkisstjórnarflokkarnir tveir gerðu með sér í kjölfar kosninganna í apríl 2009. Þar er meðal annars að finna atriði sem vert er að gefa gaum þegar við ræðum fjárlög íslenska ríkisins. Í þeirri samstarfsyfirlýsingu sem Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerðu með sér er kveðið á um og menn setja sér það sem mark og heita því að vinna með þeim hætti að í ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna verði alltaf unnið áhættumat sem lagt verður til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á þá hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið sem slíkar ákvarðanir geta leitt af sér. Jafnframt verði áhersla lögð á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar.

Þetta er endursögn af þessu ákvæði í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka og því miður verð ég að segja að ekki hefur borið mikið á því í vinnu við fjárlagagerð að að henni sé unnið með þeim hætti sem hér greinir. Þvert á móti finnst okkur þremur sem stöndum að minnihlutaálitinu hafa verið gengið þvert á þessi fyrirheit og oft og tíðum í viðkvæmum málum sem lúta að ýmsum þáttum samfélagsins, og unnið með þeim hætti að upplýsingin um ákvörðunina, áhrifin af henni liggi ekki fyrir.

Ég ætla í þessu sambandi að nefna bara eitt dæmi sem áður hefur komið til umræðu í þingsölum, það var sú tímamótasamþykkt sem fjárlaganefnd gerði og komst að samkomulagi um árið 2010. Þar sameinuðu fulltrúar allra þingflokka krafta sína í að búa til verkefnislýsingu sem fólst í því að við náðum saman um það verkefni að meta áhrif efnahagshrunsins eins og það kemur fram í niðurskurði ríkisútgjalda, bæði heildaráhrif á samfélagið og einstaka landshluta, karla og konur. Ágætlega gekk að ná samstöðu um þetta verkefni, m.a. væntanlega með vísan til þess ákvæðis sem ég las upp úr, þ.e. samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þarna átti með öðrum orðum að leitast við að greina áhrifin í niðurskurðinum á byggðirnar, á þjónustustigið o.s.frv. og jafnframt að vinna áætlun á grundvelli áætlunar um ríkisfjármálin til 2013 og reyna að leggja mat á það, þ.e. þær upplýsingar og áform sem komu fram í skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2013.

Þetta verkefni var falið Byggðastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það verður að segja alveg eins og er að upp var lagt með það af hálfu fjárlaganefndar að þetta verk gæti nýst í fyrsta skipti við fjárlagagerð ársins 2012. Þetta er allt í rúst, þetta hefur ekki náð fram að ganga. Ráðuneytin skila upplýsingum af einhverjum ástæðum seint inn til þeirra sem eiga að vinna þær upplýsingar og það er mjög miður, einfaldlega vegna þess að þetta eru þriðju fjárlögin sem þingið er að vinna sem gera ráð fyrir niðurskurði á ýmsum þáttum velferðarþjónustunnar sem við öll viljum reyna að standa vörð um.

Á meðan við höfum ekki unnið þetta verk verður umræðan um þær tillögur sem liggja fyrir því marki brenndar að hægt er að nálgast þær frá hvaða sjónarhorni sem er. Við höfum ekki sameiginlegan skilning á því út á hvað þær ganga, hver áhrifin af þeim verða o.s.frv. og þannig er hætt við að þetta lendi í pólitískri þrætu sem er í rauninni og ætti að vera nokkuð sem við reynum sem mest að forðast, sérstaklega á þessu sviði.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni í þessu sambandi þau sjónarmið sem hafa komið fram frá afar veikum byggðarlegum svæðum á Norðvesturlandi og norðausturhorni landsins. Það má vissulega heimfæra þetta upp á aðra landshluta, sérstaklega Miðsuðurland, en þau sjónarmið sem við heyrum þar frá fólki, af þessum þremur svæðum aðallega, eru þess eðlis að ég tel mjög óráðlegt að ganga gegn þeim og þess vegna höfum við, fulltrúar 1. minni hluta í fjárlaganefnd, mælt fyrir um aðra nálgun sem gefur okkur færi á því að vanda betur til verka, gera hlé í niðurskurðinn á þessu því að í grunninn er ekki um það stórar fjárhæðir að ræða að vandalaust er að forgangsraða með öðrum hætti en þarna er gert. Þetta eru ekki það stórar fjárhæðir.

Ég nefni í því sambandi að við höfum fengið tillögur til fjárlaganefndar sem gera ráð fyrir ráðningu eins starfsmanns inn í stjórnsýsluna sem kostar 10 millj. kr. Við erum kannski að ræða um 30 milljónir á grunnstofnun í einhverju héraði sem ég tel einboðið að verða við. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því að fyrirhugað var að halda hér hádegishlé.)

Ég á eftir nokkurn stubb, forseti, af ræðu minni.

(Forseti (ÁI): Þá vill forseti bjóða hv. þingmanni það að gera hlé á ræðu sinni og halda henni áfram þegar fundi verður fram haldið sem fyrirhugað er að verði kl. 14.)

Þá gerum við hlé.