140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að það geti verið ákveðinn kostur að fá þetta hlé í dæmið til þess að menn fái rýmri tíma til að undirbúa ákvörðun um fjármögnun. En ég hefði talið æskilegt að það lægi fyrir þegar við hleyptum verkinu af stað að við værum búin að greina það til enda, þ.e. að við gerðum okkur grein fyrir heildarkostnaði o.s.frv. og hleyptum þá af gikknum og verkið hæfist með því að efna í hönnunarkostnaðinn. Ég hefði talið það æskilegt, en af einhverjum ástæðum hefur það dregist. Það var boðað af ráðherra viðkomandi málaflokks í vor eða sumar að ákvörðun yrði birt í ágúst um það hvor leiðin yrði ofan á, ákvörðun yrði tekin af ríkisstjórninni. Ágúst ársins 2011 er liðinn, en væntanlega kemur ágúst á árinu 2012 og kannski liggur þetta fyrir þá. Ég veit það ekki, en tíminn einn mun leiða það í ljós.